Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vakta umræðu um ráðuneyti og málaflokka þeirra

01.12.2018 - 09:16
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Ráðuneyti landsins greiddu Creditinfo/Fjölmiðlavaktinni samanlagt rúmar þrettán milljónir króna fyrir fréttavöktun á eins árs tímabili. Flest ráðuneytin voru með reikninga upp á eina til tvær milljónir. Hæstu greiðslurnar námu 2,4 milljónum á einu ári en þær lægstu tæpum 160 þúsund krónum

Í svörum ráðuneytanna við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að greitt sé fyrir fréttavöktun. Þannig séu vaktaðar fréttir um málefni sem heyra undir ráðuneytin og snerta störf ráðherra. 

Velferðarráðuneytið greiddi hæstu fjárhæðina fyrir fjölmiðlavöktun á tímabilinu september í fyrra til ágúst í ár, samtals 2,4 milljónir króna. Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið greiddi litlu minna, 2,2 milljónir. Tvö ráðuneyti greiddu innan við milljón á þessu tólf mánaða tímabili. Það eru fjármálaráðuneytið með 961 þúsund krónur og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið með 157 þúsund.

„Tilgangurinn er að tryggja eins og unnt er að ráðuneytið hafi fullnægjandi yfirlit yfir umfjöllun um málefni er snerta störf dómsmálaráðherra og ráðuneytisins, þannig að ráðherra og ráðuneytið séu ávallt vel meðvituð um þjóðfélagsumræðuna og geti brugðist við og veitt upplýsingar ef þörf krefur og tilefni er talið til,“ segir í svari dómsmálaráðuneytisins. 

Í svari forsætisráðuneytisins segir meðal annars: „Tilgangurinn er að tryggja eins og unnt er að ráðuneytið hafi fullnægjandi yfirlit yfir umfjöllun um málefni er snerta störf forsætisráðherra og ráðuneytisins, þannig að ráðherra og ráðuneytið séu ávallt vel meðvituð um þjóðfélagsumræðuna og geti brugðist við ef þörf krefur og ef tilefni er talið til.“

„Velferðarráðuneytið hefur verið með áskrift að þjónustu Fjölmiðlarvaktarinnar frá því að ráðuneytið var stofnað. Hún felst í því að Fjölmiðlavaktin vaktar allar fréttir fjölmiðla þar sem fjallað er um ráðuneytið og ráðherra þess, auk þess sem ráðuneytið hefur aðgang að öllum fréttum sem fjölmiðlavaktin vaktar, óháð efni,“ segir í svari velferðarráðuneytisins.

„Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur um árabil, með hléum, nýtt sér þjónustu Fjölmiðlavaktarinnar. Um er að ræða vöktun á umfjöllun um ráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðherra í prent-, ljósvaka- og netmiðlum,“ segir í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins. „Tilgangurinn er að tryggja eins og unnt er að ráðuneytið hafi fullnægjandi yfirlit yfir umfjöllun um málefni er snerta störf mennta- og menningarmálaráðherra og ráðuneytisins, þannig að ráðherra og ráðuneytið séu ávallt vel meðvituð um þjóðfélagsumræðuna og geti brugðist við ef þörf krefur og ef tilefni er talið til.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV