Væri rétt að vinnustaðamat færi fram á Alþingi

29.11.2018 - 16:38
Mynd með færslu
 Mynd: ÞÓL - RUV
Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur segir að orðfæri sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla á bar í síðustu viku gefi vísbendingar að það viðgangist baktal á Alþingi. 

Þingheimur er sleginn yfir ummælum þingmannanna á upptökunni. Þar heyrast þeir úthúða Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins og flokksbræður hennar efast um formannshæfni hennar. Þeir tala niður til fleiri þingmanna, þá sérstaklega kvenna á Alþingi. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar er sökuð um að vera gerandi í MeToo-sögu. Gunnar Bragi hefur dregið ummælin til baka og beðið hana afsökunar. Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon segir að málið sé á dagskrá forsætisnefndar á mánudag. Þá segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður viðreisnar að vinnustaðnum skorti verkfæri til að takast á við málið.

Einar Gylfi segir að það væri skynsamlegt ef að Alþingi færi í gegnum mat á vinnustaðamenningu. „Það fylgir þessum störfum álag og það er athygli á þessum störfum. Þarna er vísbending um að baktal viðgangist. Ég sé ekkert sem mælir gegn því að það fari fram greining á þessum vinnustað eins og öðrum. Þetta er sérstakur vinnustaður að mörgu leyti þarna er tekist á um ýmislegt eins og markmið og það er alltaf spurningin um hvenær það fer yfir strikið “ segir Einar.