Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Væntumþykja í verki

15.03.2016 - 08:58
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV
Hildur Aðalbjörg Ingadóttir, sjúkraþjálfari, upplifði það oft í starfi sínu að aðstandendur hrökkluðust burt þegar hún kom til að gera æfingar með öldruðum eða veikum. „Mamma, ég er þá bara farin" er setning sem hún heyrði ósjaldan meðan hún gerði einfaldar æfingar. Hún sá þarna kjörið tækifæri til að saxa aðeins á biðlistana sem hrannast upp hjá sjúkraþjálfurum og auðga samverustundir með aðstandendum. Hugmyndina kallar hún „Væntumþykju í verki".

„Það er það sem fólki líður svo vel með, að hafa hlutverk, og margir segja þegar við kynnum þetta: „Já, má ég gera þetta?" og þá náttúrulega er svarið auðvitað: „Því meira, því betra,"" segir Jórunn María Ólafsdóttir, forstöðumaður hjúkrunarsviðs á dvalarheimilinu Brákarhlíð þar sem verkefninu hefur verið tekið fagnandi. 

Ekki flókið og flestum fært

Það sem hrjáir eldra fólk er oft vöðvabólga, þreyta út af stirðum vöðvum og liðum og bjúgur vegna hreyfingarleysis. Viðbragðsplanið við þess konar verkjum er að sögn Hildar ekki flókið og eitthvað sem flestir geta gert af miklu öryggi. 

Landinn hitti fólk sem sýnir væntumþykju í verki og hreyfir sig undir tónum Svanhildar Jakobsdóttur í Óskastundinni. Þáttinn í heild er hægt að sjá hér. Landinn er einnig á Facebook sem og YouTube og Instagram: #ruvlandinn.  

 

eddasif's picture
Edda Sif Pálsdóttir