Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Vændi ofbeldi en ekki starfgrein

09.12.2018 - 11:36
Mynd með færslu
 Mynd: NRK
„Ég gat sett alveg skýr skil milli þess að vera þarna og svo þegar ég var búin að þvo mér og komin út. Þarna hét ég bara öðru nafni, svo þegar ég var komin út þá gat ég farið aftur í að vera Eva Dís. Því greinilegri sem skilin gætu verið því betur leið mér,“ segir Eva Dís Þórðardóttir.

Eva sagði sögu sína í þættinum Málið er sem fluttur var á Rás 1 á föstudag og er endurfluttur í dag klukkan 15. Þar segir Eva frá reynslu sinni af því að vera í vændi sem hún segist hafa leiðst út í kjölfar grófs kynferðisofbeldis. Hún segir vændi ekki vera starfsgrein heldur ofbeldi.

Var önnur manneskja inn á vændishúsinu
Þegar hún var á vændishúsunum þá skipti hún um persónu innan þess og utan. „Því betur sem ég gat logið því að mér að nú væri ég ekki þessi vændiskona, bara ég, því betur gat ég tekist á við þetta. Þó þetta hafi verið í Danmörku þá lenti ég samt í mönnum sem ég kannaðist við. Ég lenti í því að ég hitti mann i strætó sem hafði keypt mig 3-4 sinnum. Ég er að labba inn í strætó og allt í einu mæti ég augnaráði sem rústaði tilverunni akkúrat þarna í þessum strætó. Það var algjörlega kippt undan mér fótunum. Ógeðsleg tilfinning. Að upplifa að vera engan veginn herra yfir eigin tilveru. Vera algjörlega á valdi einhvers annars út í hinum raunverulega heimi. Það var bara viðbjóður,“ segir hún.

Hamingjusama hóran ekki til 
Eva segir að mýtan um hamingjusömu hóruna sé ósönn. Hún segir að engin sé af fúsum og frjálsum vilja í vændi. „Nei. þá væri viðkomandi væntanalega tilbúinn að ræða það opinberlega eins og ég,“ segir hún og heldur áfram: „Ég hef aldrei séð neinn gera það, ef við ætlum að ræða vændi sem starfsgrein. Værum við til í að hafa það sem starfsgrein í boði á starfsdögum í framhaldsskólum? Það er svo mikið rugl í kringum þetta. Að kalla þetta vinnu. Langar einhvern að systir sín sé að þessu? Langar einhvern að mamma manns neyðist til að gera þetta? Að dóttir sín geri þetta? Nei, það langar engan það. Það segir manni ekki að þetta sé ekki í lagi. Að það sé eitthvað að þessu,“ segir Eva sem hefur nýtt sér reynslu sína, meðal annars til þess að hjálpa öðrum konum sem hafa verið í sömu sporum og hún. Þannig hefur hún séð hversu harður vændisheimurinn á Íslandi er.

Vændisheimurinn á Íslandi harður 
„Í gegnum þessar konur og líka konurnar sem ég var með í hóp hef ég fengið að sjá hvað vændisheimurinn hér er harður. Ég er svo þakklát fyrir að hafa aldrei gert þetta hérna. Þó að hlutirnir hafi verið slæmir í Danmörku þá eru aukalög hér í okkar litla samfélagi sem gera þetta verra. Ég upplifi líka meiri kvenfyrirlitningu hér á Íslandi en ég gerði í Danmörku.“

Viðtalið við Evu má heyra hér en það var einnig endurflutt á Rás 1 í dag klukkan 15.

Málið er, er á dagskrá Rásar 1 alla föstudaga klukkan 16:05 og endurflutt á sunnudögum klukkan 15. Hægt er að nálgast alla þættina í hlaðvarpinu og öðrum efnisveitum, eins og iTunes.  

 

viktoriah's picture
Viktoría Hermannsdóttir
dagskrárgerðarmaður