Útvegsmenn skynji vilja um auðlindaákvæði

07.11.2019 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu á Sjávarútvegsráðstefnunni í morgun að hún vonaðist til að Alþingi samþykki stjórnarskrárbreytingu um að fiskurinn verði sameign þjóðarinnar. Mörg hundruð gestir í sjávarútvegsgeiranum komu saman í Hörpu.

„Ég held að sjávarútvegurinn, eins og aðrar greinar, átti sig á því að þetta er yfirgnæfandi vilji þjóðarinnar að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá,“ sagði Katrín í samtali við fréttastofu, spurð hvort hún skynji ótta meðal útvegsmanna. „Mér fannst það frekar vera tóninn, að fólk skynji þennan ríka vilja almennings til að sjá ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá.“

„Þess vegna er mikilvægt að stjórnmálin verði við því og að okkur lánist að samþykkja slíkt ákvæði og að það verði sjávarútveginum til hagsbóta eins og öðrum atvinnugreinum,“ segir Katrín.

Spurð hvort það sé samhugur um þetta í ríkisstjórninni segir Katrín að unnið hafi verið að þessu á vettvangi allra stjórnmálaflokka. „Og ég veit það að auðvitað eru deildar meiningar á milli allra flokka en ég er samt bjartsýn um að það skapist rík samstaða á Alþingi fyrir slíku ákvæði.“

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi