Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Útþaninn hnúfubakur marar í hálfu kafi

28.11.2016 - 15:44
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Halldórsson - Facebook
Hræ af hnúfubak hefur marað í hálfu kafi við Hamarsbæli á Ströndum undanfarna daga. Íbúar í nágrenninu urðu varir við hræið á laugardaginn en kviður hvalsins er útþaninn þannig að hvalurinn flýtur á bakinu.

Hvalurinn var dreginn að landi svo ekki yrði siglt á hann segir Ásbjörn Magnússon, íbúi á Drangsnesi, sem festi hvalinn með akkeri um 100 metra frá landi. Ásbjörn segist aldrei hafa séð eins útþaninn hval. Hann segir að frá dýrinu leggi daun sem nær upp á land.

Gísli Víkingsson, hvalafræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að útblásni kviðurinn stafi af gerjun og rotnun, loftið kemst ekki út. Það gæti til dæmis stafað af því að tungan lokar leiðinni út. Hann segir að hvalir sökkvi oftast til botns þegar þeir drepast og rotni þar. Af myndunum að dæma telur Gísli að þetta gæti verið ungur hnúfubakur, hann virðist nokkuð lítill. Hann segir ekki óalgengt að hnúfubaka reki að landi, það séu ávallt nokkur slík tilfelli á ári. Að undanförnu hafi rekum fjölgað í samhengi við fjölgun dýra í stofni hnúfubaka á grunnsævinu við Íslandsstrendur. 

Jón Halldórsson tók myndirnar sem fylgja fréttinni. Hann segir íbúa nú ræða það hvort ekki eigi að sökkva hvalnum en að enginn hefur boðið sig fram til að stinga á kviðinn, ef til vill hafi margir séð myndbönd af því hvernig kviðir rotnandi hvala geta sprungið þegar stungið er á þá.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður