Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útlit fyrir minni sumarslátrun en í fyrra

16.08.2019 - 12:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Minna verður hægt að slátra af lömbum í sumarslátrun en til stóð. Þrátt fyrir það segjast sláturleyfishafar ná að mæta þeim skorti sem skapast hefur á kjötmarkaði. Bændur segja varla borga sig að slátra núna miðað við það verð sem sé í boði.

Sumarslátrun hófst í sláturhúsi KS á Hvammstanga síðastliðinn föstudag, en þessi forslátrun fer öll fram þar. Slátrað var 411 lömbum og í gær stóð til að slátra allt að 1200 lömbum, en náðist aðeins að slátra rúmlega 500.

Sama verð fyrir dilkana og í fyrra

Ágúst Andrésson, forstöðumaður kjötiðnaðarstöðvar KS segir útlit fyrir að sumarslátrunin verði talsvert minni en undanfarin ár. „Bændur virðast ekki vera tilbúnir til þess að koma með fé til sátrunar á þessum tíma,“ segir hann. Gert hafi verið ráð fyrir svipaðri aðsókn í sumarslátrun nú og undanfarin ár. Greitt sé 30% álag á fyrstu dilkana sem lækki svo er líði á slátrunina. Lömbin sem búið sé að slátra séu væn og það ætti ekki að fæla bændur frá.

Bændur segja varla borga sig að slátra núna 

Gunnar Þórarinsson, varaformaður Landssamtaka sauðfjárbænda segir ýmsar ástæður fyrir því að bændur séu tregir til að slátra núna. Því fylgi talsverð aukavinna og þeir telji sig ekki fá nægt verð fyrir lömbin til að þetta borgi sig. Þá hafi verið lagt til að greiða bændum ákveðinn hluta af beingreiðslum úr sauðfjársamningi til að mæta þessarri auknu vinnu og menn bíði ákvörðunar þar. 

Ná að koma nægu kjöti á markaðinn

Eins og fram hefur komið er farið að bera á skorti á lambkjöti í verslunum, en Ágúst telur þá ná að mæta þeim skorti þrátt fyrir þetta. „Núna erum við farnir að dreifa fersku lambakjöti af nýslátruðu í búðir. Þannig að það sleppur alveg til með það.“ Og hann segir að birgðastaða lambakjöts sé í sögulegu lágmarki og markaðsaðstæður hér innanlands um þessar mundir því með allra besta móti. Það ætti að hvetja bændur til að slátra snemma. „Og þess vegna skapast eftirspurn á innanlandsmarkaði sem á að vera mjög spennendi kostur, bæði fyrir bændur og ekki síst fyrir neytendur. Að það sé hægt að lengja þennan tíma sem boðið er upp á freskt íslenskt lambakjöt á okkar markaði.“ 

Hvetur bændur til að bregðast við

Í næstu viku segir Ágúst að til standi að slátra í þrjá daga og áætlað hafi verið að slátra 1200 lömbum á dag. En miðað við þessi fyrstu viðbrögð bænda líti ekki vel út með að það náist. „Og þess vegna eru það skilaboð til bænda að við hvetjum þá til þess að bakka okkur upp og vinna þetta með okkur. Við erum alveg tilbúin til að teygja okkur eitthvað lengra í því og sækja fé eitthvað lengra til, ef vændur vilja koma með til okkar í þessar slátranir.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV