Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Útlit fyrir að flytja þurfi inn hrefnukjöt

01.08.2017 - 11:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
 Einungis 17 hrefnur hafa veiðst á þessu ári og útlit er fyrir að flytja þurfi inn hrefnukjöt frá Noregi til að anna eftirspurn. Framkvæmdastjóri einu útgerðarinnar sem gerir út á hrefnu hér nú, segir veiðarnar hafa gengið töluvert verr en í fyrra.

Hrefnuveiði hófst í byrjun júní og hefur gengið heldur treglega í sumar. Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP útgerðar þeirrar eina sem gerir út á hrefnu nú og hefur gert undanfarin ár segir að 17 dýr sé talsvert minni veiði en í fyrra, þegar veiddust 46 dýr. 

Kvótinn í ár er um 220 dýr; Gunnar segir það ekki mönnum endilega kappsmál að veiða hann allan og það hafi ekki verið gert mörg undanfarin ár. Markmiðið sé að sinna þeim markaði sem er hér innanlands á veitingahúsum og í verslunum. 17 dýr duga ekki til þess en menn eigi þó einn mánuð hið minnsta eftir til veiða.  

Árið í fyrra var fyrsta árið, síðastliðin þrjú ár sem að  við höfum ekki flutt inn hrefnukjöt frá Noregi til að anna eftirspurn. Þannig að það stefnir allt í það að við verðum með norskt hrefnukjöt hér á markaði, jafnvel fyrir áramótin. 

Gunnar segir að til að dekka innanlandsmarkað þurfi um fimmtíu dýr. Flestar þeirra hrefna sem hafa veiðst í ár fengust í Faxaflóa en síðustu fjórar veiddust í Skagafirði. Fyrir norðan segir Gunnar veiðast yfirleitt kýr en fyrir sunnan tarfar. Hann býst við að helst verði sótt frá suðvesturhorninu þær vikur, sem menn verða enn á veiðum. Hrefnuveiðar má stunda í sex mánuði frá því sú fyrsta veiðist, svo veiða má fram í desember. Gunnar á ekki von á því að viðri lengur en fram í september til hrefnuveiða. Ekkert eitt skýri dræmari veiði; kannski hlýnun sjávar. 

Undanfarin ár þá hefur þetta verið að ganga hálf illa. Það hefur verið minna um hrefnu, sérstaklega á þessu suðvesturhorni. Eða bara síðan að makríllinn hóf göngu sína í einhverju magni á þessi mið okkar, þá hefur þetta verið erfiðara.