Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Útlenskt hoss gagnslaust fyrir Hross í oss

13.06.2014 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Breskir kvikmyndagagnrýnendur eru yfir sig hrifnir af íslensku kvikmyndinni Hross í oss eftir Benedikt Erlingsson. Leikstjórinn segist vera þakklátur fyrir dómana góðu sem myndin hafi fengið erlendis - þeir hafi þó ekki hjálpað til með aðsóknina hér á landi.

Hross í oss fer í almennar sýningar á Bretlandi í dag. Myndin hefði varla getað fengið betri byrjun því bresku blöðin dásama hana og leikstjórann í dag.

Independent gefur henni fullt hús - fimm stjörnur af fimm mögulegum. Í umsögninni segir að leikstjórinn Benedikt skoði frumstæðustu hvatir mannsins með augum hestsins. Gagnrýnandi Guardian  splæsir fjórum stjörnum af fimm á íslensku myndina, segir að í henni mætist hesturinn og maðurinn sem jafningjar. „Benedikt sýnir skepnuna á heiðarlegan og rómantískan hátt,“ skrifar gagnrýnandi Guardian.

Telegraph gefur henni sömuleiðis fjórar stjörnur af fimm og hið sama gera Daily Express og  Financial Times. „Benedikt Erlingsson hefur sannfært áhorfendur að villta vestrið lifir góðu lífi í nýju villtu norðri - hetjudáð, útlagar og ofbeldi og sú gullna regla að allir menn eru jafnir, sumir bara jafnari en aðrir,“ skrifar Financial Times.

Benedikt Erlingsson, leikstjóri myndarinnar, er ekki undrandi á þessum góðu dómum í Bretlandi. Erlend blöð og fagtímarit hafi hrósað henni í hástert síðan að hún var frumsýnd. „Þetta eru í raun gamlar fréttir, erlendis er talað um Hross í oss sem költ-mynd.“

Benedikt kveðst vera vonsvikinn yfir aðsókninni  hér á landi. Samkvæmt síðustu tölum frá Smáís höfðu 14.896 séð myndina á þeirri 41 viku sem hún hefur verið sýnd. „Það er samt enn von - það eru að koma svo margir erlendir ferðamenn til landsins,“ segir Benedikt. Og rétt er að geta þess að myndin er enn sýnd í Bíó Paradís - með enskum texta.

Benedikt segir dræma aðsókn kannski til marks um að Íslendingar séu að þroskast - þeir séu hættir að hlaupa á eftir því sem er hossað í útlöndum. „Ég verð samt að passa mig að láta þetta lof í útlöndum ekki skemma mig,“ segir Benedikt. Hann er þegar byrjaður að vinna að næstu mynd. Hann fæst þó ekki til að gefa upp um hvað hún er - það sé leyndarmál.

[email protected]