Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Útlendingastofnun fær frest vegna Albana

15.01.2016 - 12:01
Mynd með færslu
Albönsku fjölskyldurnar, sem fengu ríkisborgararétt fyrir jólin. Flestir sem synjað er um hæli koma frá Albaníu. Mynd: Hallgrímur Indriðason - Hallgrimur Indriðason
Umboðsmaður Alþingis hefur veitt Útlendingastofnun frest til 1. febrúar, til að svara fyrirspurn hans um málsmeðferð og rannsókn umsókna um svokölluð mannúðarleyfi af heilbrigðisástæðum.

Umboðsmaður óskaði þessara upplýsinga eftir að tveimur albönskum fjölskyldum var vísað úr landi í desember. Upplýsinganna var óskað til þess að umboðsmaður gæti tekið afstöðu til þess hvort tilefni sé til að taka til athugunar almenna framkvæmd Útlendingastofnunar í málum af þessum toga eða einstaka þætti hennar. Upphaflega var Útlendingastofnun gefinn frestur til að svara til dagsins í dag, en stofnunin óskaði þess að fresturinn yrði framlengdur til 1. febrúar og varð Umboðsmaður við því.