Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Útlendingar vildu ólmir smala í Loðmundarfirði

04.09.2018 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fjöldi útlendinga vildi taka þátt í að smala í Loðmundarfirði síðustu helgi en aðstoðin var afþökkuð. Fólkið sá auglýst eftir smölum í firðinum. Fjallskilastjóri segir þetta erfitt svæði að smala, kindurnar einstaklega óþekkar og taldi að fólkið kæmi tæplega að notum enda óvant sauðfé.

Erfiðlega hefur gengið að fá fólk til að taka þátt í smölun í Loðmundarfirði. Í vetur þurfti margoft að sækja eftirlegukindur og fé sem hafði sloppið aftur í fjörðinn en þar býr enginn á veturna. Í mars lét MAST fella 29 útigangskindur og nú stendur til að bæta fjallskil í firðinum.

Ætluðu að kaupa sér flug til að geta smalað

Borgarfjarðarhreppur brá á það ráð að auglýsa eftir fólki í smölun sem fór fram um helgina. Auglýsingin var birt í Dagskránni og eftir að fjallað var um hana í fréttum RÚV birti The Reykjavík Grapevine enska útgáfu af fréttinni. Það varð til þess að 27 tölvupóstum rigndi inn en þeir voru allir frá útlendingum og ætluðu sumir að gera sér ferð til landsins í smölun. Jón Sigmar Sigmarsson er fjallskilastjóri í Borgarfjarðarhreppi. „Þetta var náttúrulega bara fólk sem hefur kannski aldrei séð sauðkind og alls óvanir smalar. Það hugnaðist okkur nú ekki í Loðmundarfirði. Við reiknuðum þá kannski með að við þyrftum að smala því fólki. Það var lítill áhugi hjá þeim sem eitthvað þekkja til gangna. Þetta er heilmikið landsvæði og þarna eru há fjöll og fé gjarnan alveg uppi á fjallstoppum. Fé þarna er frekar óþekkara heldur en víðast annars staðar. Sumt af því hefur komist upp með að sleppa margoft í göngum og þar sem þarna hefur kannski þurft að smala með of fáum smölum. Það vindur upp á sig,“ segir Jón.

Stóðu fyrir og gerðu gagn

Nokkrir ferðamenn komu þó í fjörðinn, fengu fyrirstöðuhlutverk og gerðu gagn, segir Jón. Alls voru um 15 smalar í firðinum á laugardag en nokkuð færri daginn eftir. Auk Borgfirðinga kom hópur kom frá Héraði og Seyðisfirði af Fjarðarheiði um Afréttarskarð. Jón segir smölun hafa gengið vel og mannskapur sé nægur en í þessari atrennu var smalað norðan við Fjarðará og náðust um 450 kindur.

Bráðholl líkamsrækt

Upp úr miðjum mánuði verður smalað sunnan ár. Helsta vandamálið er að manna seinni göngur. „Þá eru bændur og þeir sem koma að göngum almennt sennilega búnir að fá nóg. Því hefur það gengið afar treglega og árangurinn eftir því. Við verðum bara að vona að einhverjir láti sig hafa það að koma. Þetta geta verið ákaflega skemmtilegir dagar og þetta er náttúrulega bráðholl og góð líkamsrækt. Ekki síður en að hamast inni á líkamsræktarstöð,“ segir Jón Sigmar Sigmarsson, fjallskilastjóri í Borgarfjarðarhreppi.