Útilokar ekki stóran jarðskjálfta við Kópasker

28.03.2019 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Ekki er hægt að útiloka að jarðskjálfti, allt að sex að stærð, geti orðið í skjálftahrinunni sem nú stendur yfir í nágrenni við Kópasker. Sérfræðingur segir að stærri skjálftar hafi mælst nú en í fyrri hrinum á þessum slóðum.

Sjálftahrinan hefur staðið síðan á laugardag og mörghundruð skjálftar mælst síðan þá. Flestallir eiga skjáftarnir upptök sín á bilinu fjóra til tíu kílómetra suðvestur af Kópaskeri, en þetta svæði er hluti af Grímseyjarbrotabeltinu.

Gæti orðið skjálfti allt upp í 6 að stærð

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að þessi hrina hafi staðið lengur en aðrar á nákvæmlega þessu svæði. „Við sjáum að það er mikil spenna þarna sem er að losna og skjálftahrinunni er ekki lokið og við getum ekki útilokað að það komi stærri skjálfti þarna á þessu svæði. Allt upp í sex að stærð teljum við að geti losnað einhversstaðar á Grímseyjarbeltinu."

Fleir stórir skjálftar en í fyrri hrinum

Og þá sé tvennt í stöðunni, annaðhvort fjari hrinan út eða endi með stórum skjálfta. Síðan á þriðjudagskvöld hafa hafa níu skjáftar yfir þrír að stærð mælst þarna og einn þeirra 4,2. Einar segir þetta óvenjulegt. „Við höfum séð í hrinum á sama svæði að skjálftar hafa farið upp í 3,3 að stærð. En við sjáum fleiri stærri skjálfta koma í þessarri hrinu en hefur áður verið á þessum stað," segir Einar.

Skjálftarnir gætu dreifst yfir stærra svæði

Og þó upptök skjálftanna séu að langmestu leyti á litlu svæði í nágrenni Kópaskers, segir Einar að þeir geti vel dreifst yfir stærra svæði. „Þó að skjálftarnir séu flestir að koma þarna í þéttum hnapp, þá er alls ekki hægt að útiloka að það komi, einhversstaðar á Grímseyjarbrotabeltinu, stærri skjálfti.“

Hvetur fólk til að fara yfir viðbragðsáætlanir

Og Einar hvetur íbúa á þessum slóðum að vera viðbúið frekari tíðindum og grípa til viðeigandi ráðstafana. „Já, ég tel það. Huga að innanstokksmunum og fara yfir viðbragðsáætlanir almannavarna um hvernig á að bregðast við jarðskjálfta,“ segir hann.