Útilokar ekki sértækar aðgerðir

23.06.2011 - 20:48
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, útilokar ekki að ríkisstjórnin bregðist við hækkandi eldsneytisverði með sértækum aðgerðum. Eldsneytisverð hefur hækkað hratt síðustu misseri. Háir skattar eru á eldsneyti - þrýstingur er því á stjórnvöld að lækka þessa skatta. Fjármálaráðherra var spurður út í málið í Kastljósi kvöldsins.

Hann segir margt koma til greina. Hann vilji síður en svo að útiloka einhverjar ráðstafanir, en þær eigi að vera sértækar og miða að því að taka á þessum vanda þar sem hann er tilfinnanlegastur. Menn þurfi þó að stíga varlega til jarðar.

Steingrímur segir að Íslendingar séu með sjötta lægsta bensínverð í Evrópu og hlutur ríkisins í því sé lægri en annarsstaðar. Önnur lönd, með einni undantekningu þó, hafi ekki farið út í það að lækka álögur til að vinna á móti hækkandi heimsmarkaðsverði, m.a. vegna þess að menn reikni með þessu sem langtímaþróun - að jarðefnaeldsneyti verði dýrt á komandi árum og áratugum.

Þessvegna eigi að nota þetta sem hvata til þess að ýta undir umhverfisvæna þróun í samgöngunum og reyna að stuðla að því að fólk fari í sparneytnari bíla, efla almenningssamgöngur og það sé að gera.