Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Úthverfamamman sem uppvakningur

Mynd: Netflix / Santa Clarita Diet

Úthverfamamman sem uppvakningur

27.02.2017 - 11:35

Höfundar

Uppvakningaformið hefur notið gríðarlegra vinsælda síðustu ár, bæði í bíómyndum og sjónvarpi. Er um að ræða sögur sem byggðar eru í kringum staðlað form uppvakningaflokksins, en sögurnar eru síðan ýmist settar inn í drama eða kómedíu, stórar eða litlar sögur, epískar heimsendasögur eða sagan jafnvel smættuð niður í óþægilega uppákomu í úthverfi.

Fertugar leikkonur snúa aftur

Úthverfamömmur sem aðalpersónur er ein af helstu tískubylgjum ársins 2017 í sjónvarpi. Oftar en ekki eru fengnar til verksins leikkonur á fertugsaldri sem gerðu það gott á tíunda áratug síðustu aldar, voru þá um tvítugt, og eru þar kunnugleg nöfn á borð við Aliciu Silverstone, Winonu Ryder, Reese Witherspoon og Drew Barrymore.

Ferill Barrymore endurvakinn

Drew Barrymore ætti að vera lesendum kunn. Hún er fædd árið 1975, byrjaði sem barnastjarna og á að baki gríðarlega fjölbreyttan og farsælan leikferil. Hægt er að nefna aðalhlutverk í myndum eins og E.T., Donnie Darko, Scream, The Wedding Singer, Never Been Kissed, og Charlies Angels sem dæmi.

Mynd með færslu
 Mynd: CC - Youtube

Þó hefur lítið sést til hennar í bitastæðum verkum á síðustu árum, og hefur aldur hennar líklega með það að gera, en afskaplega lítið er skrifað af aðalhlutverkum fyrir konur á ákveðnu aldursbili. Sjónvarpsþættirnir Santa Clarita Diet er því einstaklega velkomin viðbót fyrir aðdáendur hennar og mun hugsanlega marka upphaf nýs kafla á ferlinum.

Of gróf auglýsingaherferð

Santa Clarita Diet eru flokkaðir sem uppvakningaþættir en einnig sem gamanþættir. Auglýsingaherferðin lék sér að hinni óvæntu samsetningu væmins úthverfis og hryllings, og stuðaði þannig marga áhorfendur að því marki að herferðinni var hætt. Þættirnir eru alls ekki fyrir klígjugjarna, enda snýst mikið af gríninu um ógeð á borð við innyfli og líkamsvessa. Sömuleiðis er persónusköpunin frekar flöt, en þættirnir eru í sérflokki hvað það varðar þar sem persónusköpun er í öðru sæti eða þriðja á eftir plottframvindu og stíl.

Grínast með formið

Þættirnir gera síðan stólpagrín að uppdiktuðum en vanhugsuðum goðsögnum í poppkúltúr, líkt og þeim baksögum sem gjarnan má finna í uppvakinga-, vampíru og varúlfaþáttum og bíómyndum. En mjög algengt stílbragð í forminu er að afgerandi upplýsingar fyrir söguframvindu megi finna í einhverjum töfrahlut eða gamalli bók, oftar en ekki frá Austur-Evrópu. Sem dæmi um slíkt háð í Santa Clarita Diet þurfa persónurnar á einum tímapunkti að leggja mikið á sig til að finna uppköst úr innfæddum Serba, sem gegna lykilhlutverki við yfirnáttúrulega lausn á stóru máli.

Pólitískur veganismi

Það er vafalaust hægt að kokka upp greiningu á Santa Clarita Diet sem femínískri samfélagsádeilu þar sem valdalaus kona í valdalausri stöðu ræðst gegn valdhöfum í samfélaginu. Allir sem eru étnir eru svokallað „vont fólk“, og er séð til þess að áhorfendur finni ekki til með þeirra persónu. Sömuleiðis og kannski síðast en ekki síst má lesa hér ádeilu á kjötát, og finna pólitískum veganisma rödd innan þessarar sögu.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Lögfræðidrama af dýrustu gerð

Sjónvarp

Óþægilegt erindi við samtímann

Sjónvarp

Hægvarp á hraðri uppleið

Sjónvarp

Franskt sjónvarp fetar nýjar slóðir