Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Útgöngubanni vegna mislingafaraldurs aflétt á Samóa

29.12.2019 - 06:27
FILE - In this file image made from Nov. 25, 2019, file video, a New Zealand health official prepares a measles vaccination at a clinic in Apia, Samoa. A measles outbreak in Samoa has killed 50 babies and young children as authorities race to vaccinate the entire population of the South Pacific nation. (Newshub via AP, File)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - Newshub
Tekist hefur að koma böndum á mislingafaraldurinn sem geisað hefur á Samóaeyjum, að sögn heilbrigðisyfirvalda þar í landi, og hefur útgöngubanni sem gilt hefur á eyjunum í sex vikur nú loks verið aflétt.

Útgöngubannið var ekki algjört en allt skólahald lá niðri, fjöldasamkomur og mannfagnaðir voru bönnuð og mjög strangar reglur giltu um allar mannaferðir og samskipti á vinnustöðum og í verslunum og svo mætti áfram telja. Er þetta talið hafa heft mjög útbreiðslu mislingasmitsins.

Einnig er umfangsmikið bólusetningarátak sem hrint var af stokkunum þegar faraldurinn braust út farið að skila tilætluðum árangri, segja stjórnvöld. Fyrir tíu dögum voru samþykkt lög í landinu, um skyldubólusetningu allra barna gegn mislingum, nema læknisfræðilegar ástæður mæli gegn því.

Nær 6.000 af um 200.000 íbúum Samóa smituðust af mislingum í þessum faraldri, sem til þessa hefur kostað 81 mannslíf. Langflest fórnarlömbin voru kornabörn.