
Útgöngubann hefst í Írlandi um helgina
Útgöngubannið verður í gildi fram til tólfta apríl. Aðeins þeir sem vinna við mikilvæg störf mega fara til og frá vinnu á meðan útgöngubanninu stendur, auk þess sem fólk má sækja tíma hjá lækni og versla í matinn. Eins eru lífsnauðsynlegar ferðir af fjölskylduástæðum leyfðar, ferðir til að sinna bústörfum og eins má stunda æfingar innan tveggja kílómetra radíus frá heimili. Hvers konar samkomur, jafnt opinberar og einkasamkvæmi, verða bannaðar á tímabilinu.
Fórn fyrir stærri málstað
Leo Varadkar, forsætisráðherra Írlands, sagði á blaðamannafundi í kvöld að þetta væru róttækar aðgerðir sem miði að því að bjarga sem flestum mannslífum. „Ég bið ykkur um að fórna einstaklingsfrelsi ykkar um stund fyrir stærri málstað," sagði hann.
Fyrr í mánuðinum var skólum, háskólum og knæpum í landinu lokað. Eins voru fyrirtæki sem stunda ekki nauðsynlega starfsemi beðin um að loka vinnustöðum sínum fyrr í vikunni. Í neyðarlögum sem voru samþykkt á írska þinginu í dag var samþykkt að frysta húsaleigu og stöðva útburð á meðan kórónuveirufaraldrinum stendur. Eins ætlar írska ríkið að veita þeim fjárhagsaðstoð sem missa störf sín vegna COVID-19.