Útgöngu-, ferða- og samkomubann víða á Indlandi

22.03.2020 - 23:15
epa08313371 Indians bang utensils and clap from their balconies in New Delhi, India, 22 March 2020. Prime Minister Narendra Modi asks citizens to impose self-curfew to fight Coronavirus COVID19 and also ask them to clap, bang the bells and utensils at 5 PM Indian time as a mark of respect and to thank the medical staff and others working 24 hours during Covind-19 outbreak to keeping the Indians safe.  EPA-EFE/STR
Íbúar Nýju Delhi fylgdu fordæmi fjölmargra annarra þegar þeir stilltu saman strengi sína, fóru samstíga út á svalir og hylltu heilbrigðisstarfsfólkið í framlínu baráttunnar við COVID-19 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hundruð milljóna Indverja fengu í dag fyrirmæli um að halda sig heima, þegar yfirvöld hertu aðgerðir sínar til að stemma stigu við útbreiðslu COVID-19. 1,3 milljarðar manna búa á Indlandi.

Í dag beindu stjórnvöld þeim tilmælum til allra landsmanna að halda sig eins mikið heima og kostur væri í 14 klukkustundir. Það var ekki skylda, en aðgerðin var sögð gerð til að kanna hversu vel indverska þjóðin sé í stakk búin að takast á við mannskæðan heimsfaraldurinn.

Bara byrjunin

„Þetta var bara byrjunin á langri baráttu,“ skrifaði Narendra Modi eftir að tilrauna-heimasóttkvínni var aflétt, og kvaðst ánægður með árangurinn. „Þjóðin hefur sýnt það og sannað í dag að við getum tekist á við hvaða ógn sem er ef við bara ákveðum það,“ skrifaði Modi.

Um leið og tilraunasóttkvínni var aflétt beindi alríkisstjórnin því til einstakra ríkja að gefa út tilskipanir um allt frá fjöldatakmörkunum á samkomum til útgöngubanns á svæðum þar sem veirunnar hefur orðið vart.

Víðtækar aðgerðir í einstökum ríkjum og borgum

Fjöldi ríkja og sjálfstjórnarsvæða varð við þessum tilmælum og bannaði þegar í stað allar fjöldasamkomur og hvers kyns starfsemi sem ekki telst bráðnauðsynleg, um leið og fólk fékk fyrirmæli um að vera ekki á ferli að óþörfu. Höfuðborgin Nýja Delhi er þar á meðal. Innan borgarmarka hennar búa 20 milljónir manna og þar verða allar verslanir og skrifstofur einkafyrirtækja lokaðar til mánaðamóta hið minnsta, auk þess sem enginn má ferðast til eða frá borginni.

Önnur ríki á Indlandi hafa gripið til sömu eða svipaðra aðgerða, lokað ríkjamörkum sínum, takmarkað ferða- og samkomufrelsi fólks, sett hömlur á atvinnustarfsemi og lagt niður almenningssamgöngur svo það helsta sé nefnt. Misjafnt er hvort gripið er til útgöngubanns eða vægari úrræða til að fækka fólki á götunum en alstaðar er eitthvað að gert.

Gildir til mánaðamóta - en hvað svo?

Indversku járnbrautirnar hafa stöðvað allar farþegalestir milli borga og ríkja, en úthverfa- og vöruflutningalestir ganga enn. Þegar var búið að stöðva allt millilandaflug til Indlands og skólar, skemmtistaðir og fjölsóttir ferðamannastaðir á borð við Taj Mahal hafa verið lokaðir um hríð.

Allt gildir þetta til mánaðamóta, en samkvæmt frétt AFP líta stjórnvöld á þessar aðgerðir sem einskonar æfingu eða undirbúning fyrir það sem koma skal; enn harðari og langvinnari aðgerðir af sama toga.

Fáir hafa greinst - og fáir hafa verið prófaðir

Innan við 400 tilfelli af COVID-19 hafa greinst á Indlandi til þessa og staðfest dauðsföll eru sjö. Sérfræðingar telja þetta fremur til vitnis um hve lítið hefur verið tekið af sýnum en hitt, að svo fáir Indverjar hafi smitast af veirunni.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi