Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Útgerðarmaður gaf ekki upp notkun á erlendu kreditkorti

07.11.2019 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: cc0 - pixabay
Útgerðarmaður var í Héraðsdómi Vesturlands dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða sekt upp á 35 milljónir fyrir meiriháttar skattalagabrot. Hann gaf meðal annars ekki upp notkun á erlendu kreditkorti sem skattaskjólsfélag í eigu Sigurðar Gísla Björnssonar greiddi fyrir.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir árin 2013, 2014 og 2015 þar sem hann taldi ekki fram tekjur upp á 34 milljónir. 

Þá gaf hann ekki upp tekjur frá hafnfirska fyrirtækinu Sæmarki Sjávarafurðum upp á tíu milljónir og ekki heldur notkun á erlendu kreditkorti sem Sigurður Gísli Björnsson, forsvarsmaður Sæmarks, greiddi fyrir. Greiðslurnar fyrir kreditkortinu komu frá félagi Sigurðar Gísla sem var að finna í Panamaskjölunum.

Sigurður Gísli og fyrirtæki hans hafa verið til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er þeirri rannsókn ekki lokið. Lagt hefur verið hald á umtalsverða fjármuni í tengslum við hana og fram kom í fréttum RÚV í sumar að þetta væri ein umfangsmesta skattrannsókn síðari tíma. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV