Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Útgerð í Samherjaskjölunum fær úthlutað meiri kvóta

Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson - RÚV
Namibíska sjávarútvegsfyrirtækið Fishcor, sem var áberandi í Samherjaskjölunum, fékk fyrir helgi úthlutað 25 þúsund tonnum af hrossamakríl. Albert Kawana, starfandi sjávarútvegsráðherra, segir að þetta sé gert til að bregðast við fjárhagsvanda fyrirtækisins sem hefur ekki getað borgað laun í þessum og síðasta mánuði. Fyrirtækið fékk úthlutað miklum kvóta 2014 til 2019 og seldi undir markaðsverði, meðal annars til Samherja.

Þetta kemur fram í frétt The Namibian. Þar er haft eftir Bennett Kangumu, stjórnarformanni Fishcor, að ekki sé búið að ákveða hvernig kvótinn verður nýttur. Í Samherjaskjölunum kom fram að Fishcor hefði selt Samherja kvóta á kostakjörum, undir markaðsverði. Í frétt The Namibian kemur fram að Fishcor ráði ekki yfir flota og búnaði til að veiða hrossamakríl. Þar segir einnig að ónafngreindir heimildamenn í sjávarútvegi telji að skip á vegum Samherja verði notað til að veiða kvótann. 

Fishcor fékk úthlutað miklum kvóta til hrossamakrílsveiða í sjávarútvegsráðherratíð Bernhards Esau, sem hrökklaðist úr embætti og var handtekinn eftir að fjölmiðlar byrjuðu að fjalla um starfshætti hans. James Hatuikulipi, fyrrverandi stjórnarformaður Fishcor, og Mike Nghipunya, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, eru meðal þeirra sem bendlaðir hafa verið við spillingu í tengslum við úthlutun hrossamakrílskvóta.

The Namibian hefur eftir Albert Kawana, starfandi sjávarútvegsráðherra, að ótti um að fyrirtækið yrði gjaldþrota og starfsfólk missti vinnuna hefði orðið til þess að fyrirtækinu var úthlutað kvóta. Kawana sagði að endalok fyrirtækisins myndu hafa mikil áhrif á atvinnulíf í Lüderitz þar sem fyrirtækið hefur um þúsund manns á launaskrá.