Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Útför Birnu fer fram í dag

03.02.2017 - 06:00
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Útför Birnu Brjánsdóttur fer fram frá Hallgrímskirkju síðdegis í dag. Bestu vinir Birnu verða kistuberar. Foreldrar Birnu hafa mælst til þess við fjölmiðla að ekki verði teknar nærmyndir af fjölskyldu Birnu eða vinum við útförina en hafa lýst skilningi á því að fjölmiðlar vilji fjalla um jarðarförina og taka myndir.

Birnu Brjánsdóttur var ráðinn bani fjórtánda janúar og fannst hún viku síðar eftir umfangsmikla leit. Mál Birnu hefur verið ofarlega í huga þjóðarinnar frá því það komst fyrst í fréttir. Foreldrar Birnu hafa boðið til erfisdrykkju í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli strax að lokinni athöfn. 

 Á milli sex til átta þúsund manns tóku þátt í minningargöngu um Birnu í miðborg Reykjavíkur á laugardag þar sem blóm og kerti voru lögð við Laugaveg 31. Að því loknu var einnar mínútu þögn á Arnarhóli. Birnu var einnig minnst með athöfnum víðar um land. 

Tveir grænlenskir menn voru handteknir skömmu eftir að Birna hvarf, grunaðir um að hafa myrt hana og úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald. Annar þeirra var í gær úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í tvær vikur. Hinum var sleppt eftir að hafa gefið skýrslu fyrir Héraðsdómi Reykjaness síðdegis í gær. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að hann hafi verið látinn laus vegna þess að rannsókn málsins hafi miðað vel og að hans hlutur teljist nægilega upplýstur. Að öðru leyti sé ekki hægt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.