Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útfæra Hvalárvirkjun í skipulagi

01.01.2020 - 16:12
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Vinna við frekari skipulagsbreytingar í Árneshreppi vegna Hvalárvirkjunar er hafin. Þar er meðal annars gert ráð fyrir línu frá Hvalárvirkjun yfir Ófeigsfjarðarheiði með tengipunkti í Ísafjarðardjúpi.

Þetta kemur fram í svari Vesturverks við fyrirspurn fréttastofu. Vesturverk segir að tengipunkturinn í Ísafjarðardjúpi verði líklega í Miðdal, en Landsnet tekur endanlega ákvörðun um staðsetninguna. Þaðan eigi hún að liggja yfir í Kollafjörð í nýtt tengivirki.

Þá felast breytingarnar einnig í jarðgangagerð og breytingu á legu vegar yfir Eyrarháls, úr Melavík í Norðurfirði yfir í Ingólfsfjörð.

Vesturverk hefur jafnframt beðið Árneshrepp um leyfi til þess að vinna deiliskipulag í Ófeigsfirði vegna Hvalárvirkjunar. Útfærslu á virkjuninni, mannvirkjum henni tengdri sem og vegalagningu. Gerð verður betur grein fyrir þeim í skipulags- og matslýsingu sem Vesturverk vinnur að og eru skilyrði þess að það fái leyfi til skipulagsvinnunnar.

Skipulagsfulltrúi Árneshrepps vinnur að aðalskipulagsbreytingunum. Samkvæmt honum eru breytingarnar mjög umfangsmiklar og verða kynntar á íbúafundi í Árneshreppi á vegum sveitarfélagsins. Dagsetning fundarins er ekki ákveðin, en mun liggja fyrir þegar skipulags- og matslýsing liggja fyrir.