Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Úrskurður Mannréttindadómstóls hefur áhrif

10.02.2015 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Úrskurður Mannréttindadómstóls Evrópu um að franska ríkið hafi brotið gegn réttindum barns sem varð til með staðgöngumæðrun hefur líklega áhrif á samskonar dómsmál hér á landi að mati dósents í fjölskyldu og erfðarétti. Ekki er þó víst að niðurstaða íslenskra dómstóla verði á sömu lund.

Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði í fyrra að franska ríkið hefði brotið gegn réttindum barns sem varð til með staðgöngumæðrun þegar það neitaði að skrá það og viðurkenna faðerni þess eða móðerni. Málið hefur vakið athygli og orðið til þess að dómstólar í Svíþjóð og Þýskalandi hafa úrskurðað á svipaðan hátt. Vitað er um að minnsta kosti fimm mál hér á landi þar sem neitað hefur verið að skrá faðerni eða móðerni barna. Ein hjón hafa þegar stefnt ríkinu og Þjóðskrá.  Hrefna tók þátt í að semja frumvarp um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni sem væntanlega kemur fram á Alþingi á næstu vikum.  Hún segir að líkur séu á því að úrskurður Mannréttindadómstólsins hafi áhrif hér á landi.   

Þó að íslenskir dómstólar muni líta til úrskurðar Mannréttindadómstólsins, segir Hrefna að erfitt sé að fullyrða nokkuð um hvort niðurstaðan verði sú sama.  

Það þarf að tryggja réttindi barnanna

Hrefna segir að tryggja þurfi að barnið hafi dvalarleyfi og sé sjúkratryggt og að það njóti öruggrar umönnunar. Mögulega væri hægt að tryggja það á grundvelli barnalaga, barnaverndarlaga eða ættleiðingarlaga. Það sé ekki endilega eina leiðin til að tryggja hagsmuni barns að fallast fyrirvaralaust á niðurstöðu erlendra dómstóla sem íslenska ríkið telji að brjóti í bága við íslenskar grundvallarreglur.