Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Úrelt lyfta skerðir aðgengi að læknisþjónustu

01.02.2019 - 19:20
Mjög slæmt aðgengi er fyrir hreyfihamlaða að heilsugæslustöðinni á Akureyri. Maður sem þarf að nota hjólastól segist varla komast hjálparlaust á allar deildir. Gömul og úr sér gengin lyfta er eina leið hans um húsið.

Heilsugæslustöðin er á fjórum hæðum í sex hæða húsi. Aðalafgreiðslan er á sjöttu hæð og þar er aðgengi beint af götunni og meðal annars hannað fyrir hjólastóla. En af jarðhæð komast fatlaðir ekki upp nema í lyftu og það er þeirra eina leið á aðrar hæðir hússins. Og lyftan er komin til ára sinna. Hún er mjög þröng, það þarf að opna með handafli og stýribúnaðurinn virðist úr sér genginn.

Fer varla á heilsugæslustöðina án aðstoðar

„Hæðastillingar á lyftunni eru allar úr lagi. Og það virðist vera mjög erfitt að stilla hana þannig að hún virki eðlilega. Það er ýmist þrep ofan í hana eða upp úr henni,“ segir Jón Heiðar Jónsson, íbúi á Akureyri og varaformaður Sjálfsbjargar. „Maður gerir ekki ráð fyrir að fara einn á heilsugæsluna. Maður þarf eiginlega að gera ráð fyrir að vera bara með aðstoð.“

Mynd með færslu
 Mynd:

Segja fáar leiðir færar til úrbóta

Forsvarsmenn Heilsugæslustöðvarinnar segjast reyna að hafa lyftuna eins góða og aðstæður leyfi. En ljóst sé að hún verði aldrei góð. Húsnæðið leyfi ekki stækkun og þótt hún verði endurbætt verði hún alltaf of lítil og því ekki lögleg. Skoðað hafi verið að breyta vörulyftu í húsinu í aðallyftu eða setja lyftu utan á húsið, en það séu ekki færar leiðir.

Brýnt að komast úr núverandi húsnæði

„HSN er ekki með þessu að verja núverandi lyftu sem verður aldrei góð, en ég vil koma því á framfæri að margt hefur verið skoðað og höfum við reynt að gera eins vel og hægt er í núverandi aðstæðum sem aldrei verða góðar. Aðgengismál að þjónustunni (í víðum skilningi fyrir alla hópa) og að bæta aðstöðu fyrir starfsmenn, eru megin ástæður HSN fyrir því að komast úr núverandi húsnæði sem er ekki byggt sem heilsugæsla,“ segir Þórhallur Harðarson, framkvæmdastjóri fjármála og stoðsviða hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í skriflegu svari til fréttastofu.

Ósamstaða hjá eigendum hússins 

Það sem flækir þetta enn frekar mál er nokkrir eigendur eru að því húsi sem heilsugæslustöðin er í. Og þeirra hagsmunir eru misjafnir og visðist ekki samstaða um hvað á að gera eða hvernig. Og Jón Heiðar segir að þetta slæma aðgengi snerti fjölmarga. „Það er náttúrulega bæði mikið af eldra fólki sem sækir heilsugæsluna og svo eru menn eins og í minni stöðu og fleiri sem þurfa að notast við hjólastóla, göngugrindur og alls kyns stoðtæki, sem eru bara í vandræðum með þetta.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV