Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Urðu vitni að vændiskaupum á Strawberries

Mynd með færslu
 Mynd:
Óeinkennisklæddir lögreglumenn urðu vitni að vændiskaupum inni á kampavínsklúbbnum Strawberries í fyrrinótt. 5 starfsmenn og eigandi staðarins voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Lögreglan hafði fylgst með starfsemi á kampavínsstaðnum Strawberries mánuðum saman áður en hún lét til skarar skríða í gær og handtók 5 starfsmenn, þar á meðal eigandann. 3 voru handteknir fyrir að kaupa vændi. Starfsmennirnir voru í gærkvöld úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 8. nóvember og staðnum lokað tímabundið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögreglan fylgst grannt með starfsemi Strawberries vegna grunsemda um að mennirnir hafi haft milligöngu um sölu á vændi. Þá réðst lögreglan í húsleit á öðrum stöðum sem taldir eru tengjast eigandanum. Samkvæmt heimildum fréttastofu tókst lögreglunni að styrkja grun sinn um að vændi væri selt á staðnum með því að villa á sér heimildir og þóttust lögreglumenn vera viðskiptavinir.