Úr útsæ rísa Íslands fjöll

Mynd: RÚV / RÚV

Úr útsæ rísa Íslands fjöll

31.08.2018 - 19:09

Höfundar

Úr útsæ rísa Íslands fjöll (1961) eftir Pál Ísólfsson og Davíð Stefánsson)

Í október 1961 var efnt til hátíðahalda í tilefni þess að hálf öld var liðin frá stofnun Háskóla Íslands. Einn helsti viðburður Háskólahátíðarinnar var að flutt var ný kantata eftir Pál Ísólfsson, og fór flutningurinn fram „í hinni nýju kvikmynda- og tónlistarhöll Háskólans á Melunum“ eins og það var orðað í dagblöðum, enda var í raun einnig um vígsluhátíð Háskólabíós að ræða.

Davíð Stefánsson hafði unnið samkeppni um Háskólaljóð sumarið 1961 og Páll mátti hafa hraðar hendur til að tónverkið yrði fullbúið í tæka tíð. Sinfóníuhljómsveit Íslands og blandaður kór flutti hina nýju Háskólakantötu undir stjórn tónskáldsins, og er Úr útsæ rísa Íslands fjöll eini þáttur verksins sem hefur notið almennrar hylli.

Fyrstu árin var lagið svo að segja eingöngu á söngskrá Stúdentakórsins svonefnda sem starfaði undir stjórn Jóns Þórarinssonar og síðar Atla Heimis Sveinssonar. Upp úr 1970 fór það þó að sjást oftar á efnisskrám annarra kóra og hefur fyrir löngu unnið sér fastan sess í hugum Íslendinga. Væntanlega telja flestir lagið þó mun eldra, enda fátt í stíl tónlistarinnar eða orðfæri skáldsins sem bendir til þess að það hafi orðið til fyrir aðeins 57 árum.


Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV tóku í þriðja sinn saman höndum og gáfu landsmönnum kost á að ráða efnisskránni á fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar á nýju starfsári. Í þetta sinn gafst almenningi færi á að velja uppáhalds íslensku tónsmíðina sína í tilefni 100 ára fullveldisafmælis. Hljómsveitarstjóri var Daníel Bjarnason.