Nú þegar heimsfaraldur geisar og allar helstu tónleikahátíðir, og tónlistarfólk almennt, aflýsa og fresta tónleikum eru listamenn og tónleikahaldarar farnir að leita nýrra leiða til að halda list sinni gangandi. Í ljósi þess að ófyrirséð er hversu lengi ástandið varir er erfitt að sjá fyrir hvernig fólk eigi að afla sér tekna innan menningargeirans og þarf að bregðast skjótt við. Þá virðist þessi nýi vettvangur geta komið sér vel.
Á síðustu viku hefur mátt sjá dæmi um það, þar sem tekin var sú ákvörðun að streyma tónleikum og viðburðum í stað þess að koma fram fyrir fjölda manns. Skipuleggjendur hinna árlegu góðgerðartónleika Love Rocks NYC, þar sem Jackson Browne og Leon Bridges komu meðal annars fram kusu að streyma tónleikunum og sömuleiðis breski söngvarinn Yungblud sem streymdi tónleikum sínum í gegnum YouTube á mánudag. Listamenn hér heima hafa tekið upp á ýmsu til að stemma stigu við það ástand sem nú ríkir. Söngvarinn Svavar Knútur hefur til að mynda stofnað verkefnið Kvílist og vestfirska hátíðin Aldrei fór ég suður hefur brugðið á það ráð að streyma henni inn í stofur landsmanna.
Talsmenn bandarísku streymisþjónustunnar Big Room TV vilja meina að þessi vettvangur hafi farið ört vaxandi í menningarmiðlun síðustu misseri en þegar COVID-19 veiran braust út fór fólk að sjá hann í nýju ljósi. Sammy Rubin, meðstofnandi Big Room TV segir í viðtali við tónlistartímaritið NME, að fyrirtækið hafi þurft að breyta viðskiptamódeli sínu til að laga sig að breyttu ástandi en þeir eru að reyna að halda fjöldamarga tónleika og sýningar til að bæta upp fyrir tapaðar tekjur tónlistarmanna.
Og önnur svipuð fyrirtæki vestanhafs hafa fundið fyrir álagi en Adam Arrigo, stofnandi og forstjóri Wave XR, fyrirtækis sem skilgreinir sig sem vettvang sem streymir tónlist í gegnum sýndarveruleika, segist hafa fundið fyrir miklum og hröðum viðbrögðum. „Það hefur verið brjálað að gera, síminn hættir ekki að hringja,“ segir hann. Fyrirtækið, sem sérhæfir sig í upplifun, blandar saman lifandi streymi og sýndarveruleika til að búa til áhrifaríka tónleika á netinu, að mörgu leyti eins og tölvuleik. Fyrirtækið gerir notendum kleift að tengjast í gegnum staðgengla (e. avatars) og láta þannig áhorfendur eiga samskipti sín á milli. Fyrirtækið hefur nú þegar staðið fyrir streymisviðburði fyrir raffiðluleikarann Lindsey Stirling og EDM dúettinn Galantis.
Nú verður athyglisvert að fylgjast með hvernig málin þróast, hvort þessi streymisvettvangur sé kominn til að vera eða hvort hann sé einfaldlega tímabundinn.