Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Úr Parísarsamningi í loftslagsráð

18.04.2018 - 17:00
Mynd: RÚv / Rúv
Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður hjá skrifstofu loftslagsamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn, verður formaður loftlagsráðs sem mun hefja störf í júní. Unnið er að því að senda út tilnefningarbréf til þeirra sem munu eiga fulltrúa í ráðinu. Umhverfisráðherra segir að þó að við höfum ekki staðið okkur vel fram til þessa í loftslagsmálum sé ekkert annað í boði en að ná þeim markmiðum loftslagssamningsins. Verðandi formaður ráðsins segir nauðsynlegt að spýta í lófana

Veiti stjórnvöldum aðhald

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um stofnun loftslagsráðs. Hugmyndir um loftslagsráð eru þó ekki nýjar af nálinni. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagði í tvígang fram tillögu 2006 og 2007 um stofnun slíks ráðs. Tillagan hlaut ekki brautargengi en meginhlutverk ráðsins átti að vera að gera ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þingsályktunartillaga sem Katrín Jakobsdóttir, þingmaður VG, lagði fram 2016 nær sama efnis sem stjórnarandstöðuþingmaður var samþykkt en ekkert hefur verið gert með hana fyrr en nú.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, bendir á þá staðreynd að hlutur loftslagsmála hafi stækkað umtalsvert á síðustu árum. Það kalli á aukna og betri yfirsýn yfir það hvernig stjórnsýslu þessara mála er eða eigi að vera háttað. Hann segir að hlutverk ráðsins verði í fyrsta lagi að rýna aðgerðaráætlanir stjórnvalda í loftslagsmálum.

„Í öðru lagi að rýna áætlanir um rannsóknir á afleiðingum loftslagsbreytinga og í þriðja lagi þá sé almennt hlutverk að veita leiðbeiningar og fræðslu til almennings, stjórnvalda og stofnana,“ segir Guðmundur Ingi.

En hvaða væntingar hefur ráðherra til ráðsins. Er hætt við að þetta verði bara enn ein nefndin eða ráðið sem skilar engum eða litlum árangri. Niðurstaðan verði bara meiri pappír og skýrslur.

„Nei, ég hef þær væntingar til ráðsins að það geti orðið stjórnvöldum til raunverulegrar ráðgjafar og geti líka haft eftirlitshlutverk með stjórnvöldum. Það sé að veita stjórnvöldum aðhald. Í því skyni horfum við til þess hvernig ráðið er saman sett,“ segir Guðmundur Ingi.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra.

Sérfræðingur í loftlagssamningi SÞ

Unnið er að því að senda út tilnefningarbréf. Í ráðinu munu eiga sæti fulltrúar Bændasamtakanna, Festu - miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, Neytendasamtakanna, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Að auki munu sitja í ráðinu fulltrúar fá umhverfisamtökum og háskólum. Jafnframt er stefnt að því að rödd ungs fólks verði tryggð í ráðinu.

Halldór Þorgeirsson, sem starfar sem forstöðumaður á skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna, verður formaður ráðsins. Hann hefur starfað að loftslagsmálum um árabil. Vann að stefnumörkun í loftslagsmálum á vegum Sameinuðu þjóðanna í aðdraganda Parísarsamkomulagsins og gegndi mikilvægu hlutverki á fundinum í París 2015 þar sem samkomulagið var samþykkt. Það felur í sér að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 af hundraði fram til ársins 2030 miðað við stöðuna 1990 eða að meðalhitastig jarðar hækki ekki um meira en 2 gráður eða verið frekar nær því að hækka aðeins um 1,5 gráður. En hvaða væntingar hefur hann til ráðsins. Hann segir að loftslagsmál séu í raun mestu framfaramál samtímans og það sé mjög jákvætt að ákveðið hafi verið að stofna loftslagsráð.

„Loftslagsráð getur í raun virkjað þann mikla vilja sem er til framfara og þann samtakamátt sem er til staðar. Þarna skapast vettvangur til þess að veita stjórnvöldum faglegt aðhald með markvissri ráðgjöf,“ segir Halldór. Hugsunin sé að ráðið starfi sjálfstætt þó að það muni vinna náið með stjórnvöldum.

Aðgerðaráætlun á leiðinni

Hlutverk loftslagsráðsins er ekki að leggja fram aðgerðaráætlun um hvernig og hvaða aðgerðum verður beitt til að ná þeim markmiðum sem við höfum samþykkt að ná. Það hefur verið beðið eftir aðgerðaráætlun af hálfu stjórnvalda um loftslagsmál. Að einhverju leyti má segja að tíð stjórnarskipti hafi komið í veg fyrir að lögð hafi verið fram fullmótuð áætlun. Forvera núverandi umhverfisráðherra vannst ekki tími til að ljúka áætlun. Þeirri vinnu hefur verið haldið áfram og innan skamms mun aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar verða lögð fram.

Það hefur oft verið sagt að það kosti talsverða peninga að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að á næstu fimm árum verði varið um sjö milljörðum króna til loftslagsmála. Halldór Þorgeirsson segir að dýrasta aðgerðin sé aðgerðarleysi.

„Það er alveg ljóst að það dýrasta er að fresta aðgerðum og gera ekkert. Dýrasta aðgerðin er aðgerðarleysi. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því að þetta er mjög hagkvæmt. Þannig að þetta er ekki bara spurning um kostnað vegna þess að við getum komið í veg fyrir töluverðan kostnað af veðurfarsbreytingum með því að takast á við þetta. Við getum líka skapað miklu lífvænlegra samfélag,“ segir Halldór.

Ekkert annað í boði

En allt þetta snýst um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná að minnsta kosti þeim markmiðum sem eru fram undan: 40% samdrætti vegna Parísarsamkomulagsins og að Ísland verði orðið kolefnishlutlaust árið 2040.  Síðustu fréttir eru þær að við erum í raun að auka losun. Það á að minnsta kosti við um samgöngur. Við munum ekki ná markmiðum Kíótósamkomulagsins sem lýkur 2020.
Umhverfisráðherra segir það staðreynd að frammistaðan fram til þessa hafi ekki verið nógu góð.

„Ég fer ekki í neinar grafgötur með það, að sjálfsögðu ekki. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn að við getum sett fram skýra áætlun um það hvernig við náum þessu. Í mínum huga þá er í rauninni ekkert annað í boði fyrir 2030 en að ná þessum markmiðum,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann bendir á að nú sé búið að koma upp hleðslustöðvum hringinn í kringum landið. Hins vegar sé umferðin mest og mengi mest á höfuðborgarsvæðinu. Þar þurfi sérstaklega að flýta rafbílavæðingunni eða breytingunni yfir í umhverfisvænar bifreiðar. 

En hvað segir verandi formaður ráðsins Halldór Þorgeirsson. Er raunhæft að við náum þeim markmiðum sem sett hafa verið í loftslagsmálum?

„Það sem þetta snýst raunverulega um er að gera það raunhæft. Það er alveg ljóst að þetta er mikið viðfangsefni og ég er ekki að gera lítið úr því sem þarf að gera. Þetta er raunhæft ef við tökum höndum saman og raunverulega spýtum í lófana, gerum meira og hraðar,“ segir Halldór Þorgeirsson verðandi formaður loftslagsráðs.

Nánar er fjallað um þetta mál í Speglinum.
 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV