Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Úr einu prósenti í að velgja Guðna undir uggum

26.06.2016 - 01:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Lægsti punkturinn í kosningabaráttu Höllu Tómasdóttur rann upp að morgni 11. maí. Þá birti Fréttablaðið skoðanakönnun sem gaf til kynna að aðeins einn af hverjum hundrað kjósendum hygðist kjósa hana. Hún mældist þá með minna fylgi en Guðni Th. Jóhannesson (69 prósent), Davíð Oddsson (13,7 prósent), Andri Snær Magnason (10,7 prósent) og Ólafur Ragnar Grímsson (3,2 prósent), þó sá síðasti væri hættur við framboð. Hún var með álíka fylgi og Elísabet Jökulsdóttir og Sturla Jónsson.

Þessi skoðanakönnun Fréttablaðsins var ekki einsdæmi. Tveimur dögum áður, 9. maí, mældist hún með 1,7 prósenta fylgi í skoðanakönnun MMR, og Maskína mældi hana með 1,8 prósenta fylgi í könnun sem var birt 29. apríl. Í millitíðinni hafði hún að vísu mælst með þriggja prósenta fylgi í skoðanakönnun Fréttablaðsins. Fleiri lágar mælingar birtust næstu daga. Maskína mældi hana með 2,9 prósenta fylgi 13. maí og degi síðar mældist hún með 1,5 prósenta fylgi í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar.

Rétt náði inn í fyrstu kappræðurnar

Fyrstu kappræður forsetaframbjóðenda í sjónvarpi fóru fram á Stöð 2 27. maí. Skilyrði fyrir þátttöku var að frambjóðandi næði 2,5 prósenta fylgi sem birtist þá um morguninn. Halla rétt náði inn, með 2,5 prósenta fylgi. Hún var spurð hvort hún hygðist hætta við framboð.

Eftir þetta fór fylgi Höllu vaxandi. Hún mældist með 5,9 prósenta fylgi í skoðanakönnun sem birtist í Fréttablaðinu 30. maí og 6,9 prósenta fylgi í könnun MMR sem birtist næsta dag. Fylgið var komið í 7,5 prósent í könnun Gallup 3. júní og mældist 7,3 prósent í Fréttablaðinu þremur dögum síðar. 

Tíu prósenta múrinn rofinn

Það var ekki fyrr en 13. júní sem það birtist skoðanakönnun þar sem Halla mældist með meira en tíu prósenta fylgi. Hún fékk 12,3 prósent í könnun Félagsvísindastofnunar sem birtist 13. júní. 

Síðastliðinn miðvikudag birtust tvær kannanir. Halla var með 16,3 prósent í könnun Félagsvísindastofnunar og 19,6 prósent hjá Fréttablaðinu. Á föstudag mældist hún með 18,6 prósenta fylgi í könnun Gallup.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV