Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Uppsagnirnar mikið áfall

30.03.2020 - 17:05
Uppsagnir á Suðurnesjum síðustu daga eru mikið áfall, að sögn Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra Suðurnesjabæjar. Sveitarfélögin á Suðurnesjum vinna saman að mótvægisaðgerðum og ætla áfram að þrýsta á ríkið um að auka fjárframlög til landshlutans.

Isavia sagði 101 starfsmanni upp í dag og bauð 37 manns áframhaldandi starf í skertu starfshlutfalli til framtíðar. Þetta var gert vegna áhrifa COVID-19 faraldursins á ferðaþjónustu. Rúmt ár er síðan flugfélagið WOW Air varð gjaldþrota og þá misstu 1.100 manns atvinnuna, margir þeirra Suðurnesjamenn. 

„Þetta er auðvitað mikið áfall og til viðbótar við ýmislegt annað sem hefur verið í gangi og við svo sem höfum ekki séð fyrir endann á afleiðingunum næstu vikur og mánuði,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar. „Þetta tekur til sín og ég tala nú ekki í framhaldi af því sem að kom upp fyrir ári síðan þannig að við sveitarfélögin erum mikið að vinna saman í því hvernig við getum mætt þessum áföllum.“

Fram kom í viðtali við Hildi Jakobínu Gísladóttur, forstöðumann Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, í gær að atvinnuleysið þar í mars sé líklega á milli þrettán og fjórtán prósent.  

Síðustu ár hafa bæjarstjórnir sveitarfélaganna á Suðurnesjum kallað eftir auknum fjárframlögum frá ríkinu og því verður haldið áfram að sögn Magnúsar. „Bæði varðandi ríkisstofnanir og almennt séð. Það hefur ekkert breyst og við köllum eftir því að fá meira af fjármunum, bæði til rekstrar og uppbyggingar hérna á Suðurnesjum, ekki síst í því ljósi hvernig staðan er orðin núna.“

Bæjaryfirvöld á Suðurnesjum verði áfram í samskiptum við stjórnvöld til að freista þess að fá stuðning vegna þessarra áfalla. „Þegar atvinnuleysi er orðið svona mikið þá er þetta ástand orðið mjög alvarlegt,“ segir bæjarstjórinn.

Magnús sagir að almennt hafi gengið vel í sveitarfélaginu á breyttum tímum vegna COVID-19 faraldursins. Starfsfólki og stjórnendum hafi tekist vel að halda öllu gangandi og hann vill hrósa þeim fyrir það.