Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Uppsagnir Arion gætu farið fyrir Félagsdóm

26.09.2019 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir það ljóst að lög um hópuppsagnir séu gagnslaust plagg og gagnrýnir harðlega samráðsleysi Arion banka við uppsagnir á 100 starfsmönnum í dag. Hann segir að það gæti farið svo að málinu verði vísað til Félagsdóms.

Friðbert ræddi um uppsagnirnar í Samfélaginu í dag. Hann segir að uppsagnirnar séu að mestu yfirstaðnar „Ég hef heyrt í trúnaðarmönnum en þeir hafa verið mikið uppteknir af því þeir hafa verið viðstaddir uppsagnirnar en það er náttúrulega bara mjög svart hljóð í öllum, sérstaklega í þeim sem missa lífsviðurværi og vinnuna sína. En það er líka slæmt hljóð í þeim sem eftir sitja og missa góða vinnufélaga. Ég er nú búinn að reyna þetta í nokkuð mörg ár í samvinnu við starfsmenn sem eru að lenda í þessu og þá sem einnig halda vinnunni. Menn sem halda vinnunni jafnvel ásaka sjálfan sig, af hverju hún eða hann og ekki ég? Svo kemur alltaf þessi spurning upp, hver er næstur?“

Jafnt kynjahlutfall þeirra sem voru reknir

„Mér er tjáð af bankanum að rúmlega 10% þeirra sem missa vinnuna núna eru á aldrinum 60-69 ára og flestir þeirra eru að fara á eftirlaun. Kynjahlutföllin eru eiginlega jöfn, 52% konur. Kynjaskipting í bankanum sjálfum og starfsmannahópnum er 60% konur og 40% karlar þannig það er mjög jafnt á milli kynja að þessu sinni.“ segir Friðbert. 

Þá eigi félagsmenn félagsins oftast auðvelt með að fá nýja vinnu. „Sem betur fer hefur okkar fólki gengið ótrúlega vel að fá vinnu á nýjum vettvangi. En það er nú ekki mikið um að fólk fari á milli fjármálafyrirtækja. Flestir þeir sem missa vinnuna eru með menntun, mjög oft góða háskólamenntun á mörgum sviðum. Þarna eru viðskiptafræðingar, hagfræðingar, lögfræðingar, tölvufólk og fleiri. Við vonum að sjálfsögðu að þeim gangi öllum vel og við sem stéttarfélag munum aðstoða þau á allan mögulegan máta.“

Gagnrýnir harðlega samráðsleysi bankanna.

Hann segir Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja standa frammi fyrir nýjum veruleika hvað varðar tilkynningarskyldu fyrirtækja sem ráðast í hópuppsagnir. „Samráðið felst í því að reyna að minnka höggið eins og mögulegt er og fækka uppsögnum. Fyrir utan það að skoða hvernig hópurinn er samsettur og annað slíkt. Við hefðum að öllum líkindum ekki getað breytt miklu en þetta reiðarslag er alveg mjög hart og við höfum aldrei lent í þessu fyrr að við séum ekkert með í ráðum og í undirbúning vegna þess að í lögum um hópuppsagnir þá eru ákvæði um þetta samráðsferli. Bankinn segir að af því að hann er skráður á markaði í Kauphöllin að þá yfirtaki þær skyldur sem hann ber gagnvart markaði lögin um hópuppsagnirnar, þar af leiðandi er þetta algjörlega gagnslaust plagg.“

Aðspurður um næstu skref segir hann að það sé í skoðun. „Við munum að sjálfsögðu skoða með okkar lögmönnum hvað best er að gera. Ein leiðin er sú að fara með þetta mál fyrir Félagsdóm og láta hreinlega á það reyna – eru lögin í gildi eða eru einhver önnur lög sem taka þau úr gildi. Þessu þarf að svara. Við munum náttúrulega aðstoða fólk að fara yfir þessar uppsagnir og þau samningabréf sem fólkið hefur fengið og kanna hvort það hafi ekki verið rétt staðið að öllu. Það er fyrsta skrefið. Svo munum við auðvitað láta lögmenn okkar fara yfir lög um hópuppsagnir.“