Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Uppsagnir áfall en bankakerfið of dýrt

28.09.2019 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Forsætisráðherra segir í tilefni af uppsögnum í bönkunum að það sé mikið áfall fyrir fólk að missa vinnuna en hins vegar hafi verið bent á að íslenska fjármálakerfið sé tiltölulega dýrt. Lækkun sérstaks fjársýsluskatts ætti þó að gera létt rekstur fjármálafyrirtækja. 

Á þriðja hundrað manns misstu vinnuna í hópuppsögnum í vikunni. Mestur munar um þá 100 hundrað starfsmenn sem sagt var upp hjá Arion banka í fyrradag. Sama dag sagði Íslandsbanki upp 20 til 25 manns og kreditkortafyrirtækið Valitor sagði upp tólf manns. Þá var 87 flugmönnum hjá Icelandair sagt upp á miðvikudag. Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld að hópuppsagnir það sem af væri ári væru nú orðnar fleiri en allt árið í fyrra. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að vissulega sé mikið áfall að vera sagt upp: 

„Það er auðvitað mikið áfall fyrir alla sem missa vinnuna þ.a. auðvitað er það gríðarlega erfitt og fyrir svona stóran hóp af fólki. Síðan vil ég sega það að það auðvitað hefur hins vegar verið bent á það m.a. í greinargerðum sem hafa verið unnar fyrir stjórnvöld að íslenska fjármálakerfið er tiltölulega dýrt þ.a. að einhverju leyti er þetta einn af þeim möguleikum sem maður gerir sér grein fyrir að var í stöðunni. Ég þekki að sjálfsögðu málflutning fjármálafyrirtækja um álögur á fjármálafyrirtæki og nú hefur raunar verið lagt fram á Alþingi frumvarp um lækkun á bankaskattinum. Því það má segja að við séum með fremur háar álögur á fjármálafyrirtæki annars vegar bankaskatturinn og hins vegar sérstaki fjársýsluskatturinn. Nú höfum við lagt fram að hann verði lækkaður og það hefur verið okkar ætlunarverk frá upphafi enda var hann tímabundinn á sínum tíma og ætlaður í tiltekið verkefni. Þ.a. að það ætti a.m.k. að vera til þess að létta rekstur fjármálafyrirtækja.“

Heldurðu þá kannski að það hafi verið ótímabært af bankanum að segja upp þetta mörgum starfsmönnum fyrst að það liggur fyrir að þessi skattur verði aflagður?

„Ja, það er auðvitað bara ákvörðun bankans og honum er kunnugt um þessi áform, frumvarpið er lagt fram, þ.a. þau hljóta að gera ráð fyrir því í sínum áætlunum,“ segir Katrín Jakobsdóttir.