Í Smáa letrinu, hennar sjöundu ljóðabók, teygir Linda Vilhjálmsdóttir sig aftur til formæðra eins langt og hún getur séð þær. „Sem er náttúrulega ekkert mjög langt en maður getur ímyndað sér aftur í tímann. Þó mér finnist ég ekki hafa lifað mjög lengi þá hafa orðið rosalegar breytingar á þessu tímabili.“
Linda tekur undir það að Smáa letrið sé kvennapólitísk bók. „Ég tel mig alltaf hafa verið jafnréttissinnaða og kvenfrelsiskonu. Ég hef ekki alltaf verið sammála jafnréttisbaráttunni eins og hún hefur verið rekin í gegnum tíðina. Ég þurfti að finna mína eigin leið. Það er kannski ekki fyrr en núna síðustu tvö árin sem mér hefur fundist ég vera komin það djúpt í skilningi á feðraveldinu og hvaðan ég er að koma að ég geti kallað mig femínista. Það er eiginlega Donald Trump og kvennamarsinn í Bandaríkjunum sem kom mér alla leið þangað.“