Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Uppreisnarljóð Lindu Vilhjálmsdóttur

Mynd: RÚV / RÚV

Uppreisnarljóð Lindu Vilhjálmsdóttur

01.10.2018 - 15:30

Höfundar

Linda Vilhjálmsdóttir yrkir um sjálfa sig og formæður í ljóðabókinni Smáa letrið. Það er uppreisn í þessari bók, segir Linda, sem þurfti að að finna sína eigin leið í jafnréttisbaráttu kvenna.

Í Smáa letrinu, hennar sjöundu ljóðabók, teygir Linda Vilhjálmsdóttir sig aftur til formæðra eins langt og hún getur séð þær. „Sem er náttúrulega ekkert mjög langt en maður getur ímyndað sér aftur í tímann. Þó mér finnist ég ekki hafa lifað mjög lengi þá hafa orðið rosalegar breytingar á þessu tímabili.“

Linda tekur undir það að Smáa letrið sé kvennapólitísk bók. „Ég tel mig alltaf hafa verið jafnréttissinnaða og kvenfrelsiskonu. Ég hef ekki alltaf verið sammála jafnréttisbaráttunni eins og hún hefur verið rekin í gegnum tíðina. Ég þurfti að finna mína eigin leið. Það er kannski ekki fyrr en núna síðustu tvö árin sem mér hefur fundist ég vera komin það djúpt í skilningi á feðraveldinu og hvaðan ég er að koma að ég geti kallað mig femínista. Það er eiginlega Donald Trump og kvennamarsinn í Bandaríkjunum sem kom mér alla leið þangað.“

Mynd með færslu
 Mynd: Forlagið

Það er uppreisnarandi í bókinni og Linda segir að konur á hennar aldri þurfi að taka undir með kór yngri kvenna sem standi nú í fremstu víglínu í baráttunni. „Það eru þær sem að standa í baráttunni og við þurfum að taka undir af fullum krafti.“

Um leið yrkir hún um sára hluti í bókinni, eins og barnleysi. „Það er partur af minni sögu,“ segir Linda. „Ég er að segja hvernig það er að berjast við allar þessar ósýnilegu reglur og siði í þessu samfélagi sem maður er smám saman að reka sig á. Smáa letrið, til dæmis, sem er titill sem kom frekar seint á þessa bók, það segir frá öllum þessum neðanmálstextum og þessum ósýnilegu hefðum og reglum sem við konur erum aldar upp í sem við tökum ekki eftir sjálfar. Erum alltaf að ritskoða okkur sjálfar og í sjálfsniðurrifi.“

Linda segist hafa unnið úr þessum málum prívat og persónulega síðustu ár. „Fyrir mér þá var það að hætta sjálfsniðurrifi, sem var mér eðlilegt frá blautu barnsbeini, að hætta að skamma mig áfram, það var erfiðara fyrir mig að hætta því en að hætta að drekka og reykja. Ég þurfti harða leiðsögn.“

Egill Helgason ræddi við Lindu Vilhjálmsdóttur í Kiljunni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Linda Vilhjálmsdóttir verðlaunuð í Póllandi

Bókmenntir

Ljóðskáld í leit að samastað

Bókmenntir

Frjáls eins og „pólitíkus sem losnar af þingi“

Bókmenntir

Frelsi Lindu Vilhjálmsdóttur