Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Uppnám á Alþingi - myndskeið

13.03.2012 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Gera þurfti hlé á þingfundi í dag vegna uppnáms þegar Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vildi fá að bera af sér sakir vegna umræðu um uppákomu á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun.

Fundinum var frestað í morgun vegna þess að formaður nefndarinnar, Valgerður Bjarnadóttir, taldi að Vigdís hefði brotið þingsköp Alþingis með því að vitna til orða gesta nefndarinnar. Þetta segir Álfheiður Ingadóttir, einn nefndarmanna.

Gestir nefndarinnar voru þrír fulltrúar stjórnlagaráðs. Vigdís neitar að hafa brotið trúnað, en hún mun hafa sett færslu á Facebook síðu sína, sem snéri að umræðum á nefndarfundinum. 

Í færslunni gaf Vigdís til kynna að búið væri að slá út af borðinu hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu um skýrslu stjórnlagaráðs samhliða forsetakosningunum.

Færslurnar eru ekki lengur á síðunni hennar.  Álfheiður Ingadóttir óskaði eftir því að fundi yrði slitið, vegna færslna Vigdísar, og var það gert.

Á þingfundi eftir hádegi, þegar störf þingsins voru til umræðu, gagnrýndu Valgerður og Álfheiður, í ræðustól, Vigdísi fyrir framferði sitt á fundinum í morgun. Þegar Vigdís vildi fá að stíga í ræðustól til að bera af sér sakir fékk hún það ekki, á þeim forsendum að hún hefði brotið þingskaparlög.

Að loknu stuttu hléi, þar sem Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis fundaði með þingflokksformönnum, steig Vigdís í ræðustól og færði rök fyrir því hvers vegna hún hefði ekki brotið þingskaparlög og hélt því fram að hún hefði verið beitt ofbeldi á þinginu, fyrst á fundinum í morgun og svo á þingfundinum.