Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Upplifa áfallastreitu frá HIV-plágunni út af COVID-19

21.03.2020 - 09:11
Mynd: RÚV / RÚV
Kórónuveiran vekur upp slæmar minningar fyrir marga úr samfélagi samkynhneigðra sem muna HIV-pláguna þegar hún var upp á sitt versta á níunda og tíunda áratugnum. Þetta segir Einar Þór Jónsson framkvæmdastjóri samtakanna HIV Ísland en hann er jafnframt formaður Geðhjálpar.

Einar segir að ástandið nú minni hann svo sannarlega á gamla tíma. „Við sem smituðumst af HIV-veirunni á níunda áratugnum og lifðum af, við upplifum endurupplifun, og þegar ástand skapast eins og núna fær maður áfallastreitu,“ segir Einar Þór í samtali við Morgunþátt Rásar 1 og 2. „Það er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga þegar við tökumst á við ástandið, við erum öll í áfalli, við eigum eftir að minnast þessa tíma, að þetta var tráma sem við lentum í.“ Einar Þór hefur verið HIV-jákvæður í 35 ár og er nú á lyfjum sem halda veirunni algjörlega í skefjum. „En Þegar HIV-veiran var skilgreind var þetta drepsótt. Það að fá HIV var dauðadómur og engin undankomuleið með það.“

Eitt það sérstaka við HIV-faraldurinn er að þar voru jaðarhópar skilgreindir sem áhættuhópar. „Það fer alltaf dálítið um mig þegar ég heyri fólk flokkað,“ segir Einar. „Hver skyldi vera meira smitandi hvar og hvernig, hvaða hópar, ferðamenn, börn eða eldra fólk. Þetta rífur upp sár. Þegar sagt er að við lifum á fordæmalausum tímum þá er það auðvitað ekki þannig. Fyrir okkur sem stóðum í þessu á 9. áratugnum var þetta alveg skelfilegur tími.“ Ekki aðeins voru samkynhneigðir að kljást við sjúkdóminn heldur líka fordóma samfélagsins sem hafnaði þeim hvort sem þeir voru smitaðir eða ekki. „Það voru settar ferðahömlur á HIV-jákvætt fólk til Bandaríkjanna, Asíu og Rússlands. Það var á teikniborðinu í Svíþjóð og hér að það þyrfti að setja „þetta fólk“ í algjöra einangrun, það væri hægt að nota Flatey á Breiðafirði til dæmis.“ Þá hafi meira að segja komið til tals hvort rétt væri að tattúvera HIV-smitaða svo aðrir gætu varað sig á þeim.

Einar tók meistarapróf í lýðheilsufræðum og segir margt við núverandi ástand áhugavert. „Ég er ekki endilega að velta mér upp úr veirunni en hef gríðarlegan áhuga á viðbrögðunum. Ég vona að háskólasamfélagið sé að rannsaka þetta nógu vel, tala við fólk og hvernig því líður, hvað ríkisstjórnir eru að gera. Á veiran eftir að gera mikinn usla í heilsufari okkar en ekki síður hvort hún veldur breytingu á samfélögum og gildismati. Sjálfur hef ég ekki snert aðra manneskju í tvær vikur.“ Þá hafa ýmsir velt því fyrir sér hvort viðeigandi sé að hafa ástandið í flimtingum, í ljósi alvarleika þess. „Við hlógum oft að HIV-veirunni í gamla daga. Við sem hópur reyndum að halda í húmorinn og samheldnina, það er gríðarlega mikilvægt.“ Einar segir að hópurinn sem myndaðist þá haldi enn sambandi. „Við sem lifðum af. En mitt í öllu þessu voru félagar okkar að tærast upp og deyja. Maður fylgdi mörgum að grafarbakkanum. Það mótaði okkur, við vorum ungt fólk á þessum árum.“

Einar Þór er líka formaður Geðhjálpar og hann hefur orðið var við aukna ásókn í þjónustu samtakanna. „Við höfum aukið við ráðgjafarþjónustuna, það er hægt að koma milli 9 og 3 eða hringja í 570-1700 og hafa samband á netinu.“ Hann segir að þó umfangið hafi ekki verið jafn mikið þá sé ýmislegt líkt. „Fólk vildi ekki faðma, snerta eða umgangast þá sem voru HIV-jákvæðir“. Nú hefur verið sett á heimsóknarbann til fólks á sjúkrahúsum og dvalarheimilum sem snertir Einar Þór mjög. „Maðurinn minn til þrjátíu ára, sem er sænskur, er með alzheimer. Við erum báðir HIV-jákvæðir og hann er orðinn illa haldinn af heilabilun. Ég má ekki koma til hans á Grund og hann auðvitað skilur ekkert hvað er að gerast. En ég náði að tala aðeins við hann í gær og hef náttúrulega margreynt að útskýra þetta með veiruna. Og þá segir hann allt í einu: þetta er bara eins og með veiruna okkar.“

„Ég sætti mig ekki við að fá ekki að hitta manninn minn í lengri tíma. Nú hefur þetta staðið yfir í tvær vikur. Þetta hvílir mjög þungt á mörgum,“ segir Einar. Hann segir að ef núverandi ástand dregst yfir einhverja mánuði verði að finna lausn sem geri fólki kleift að hitta ástvini sína. „Eitthvað hafði ég vakið athygli á þessu og þá fékk ég skilaboð frá ungri konu sem spurði hvort ég vildi að veiran kæmist inn á elliheimili og dræpi ömmu hennar.“ Hann segir vitað mál að að uppfylltum ákveðnum varúðarráðstöfunum ætti að vera hægt að lágmarka smithættu verulega, auk þess sem fjöldi starfsfólks umgangist heimilisfólkið. „Þannig það er mjög hæpið að nánasta aðstandanda sé meinað að hitta sinn nánasta, sem er kannski alvarlega veikt fólk að upplifa sínar síðustu vikur og mánuði. Þetta er ómannúðlegt til lengri tíma og eykur enn á þetta áfallastreituástand. Kannski þó að veiran verði horfin verðum við ennþá að jafna okkur. Við þurfum að huga að því líka.“