Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Uppistand með heilkennum og öðrum röskunum

Mynd: RÚV / RÚV

Uppistand með heilkennum og öðrum röskunum

10.10.2018 - 10:15

Höfundar

Í sumar vakti athygli uppistandssýning sem kallaðist My Voices Have Tourettes. Þar voru á ferðinni tveir uppistandarar með tourette-heilkennið auk eins með geðklofa. Nú bætist við dagskrána kvíðasjúklingur.

Þau Elva Dögg Gunnarsdóttir og Dan Zerin sem kljást við tourette-heilkennið settu ásamt Hönnuh Proppé Bailey, sem greind er með geðklofa, uppistandið á laggirnar í sumar. Uppistandskvöldin mæltust vel fyrir og nú hafa þau Elva Dögg og Dan Zerin hafið framhald á uppistandinu, undir sömu yfirskrift og við hefur bæst uppistandarinn Þórhallur Þórhallsson en hann þjáist af kvíða. Dan Zerin, Elva Dögg og Þórhallur heimsóttu þau Andra Frey og Hafdísi Helgu í Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Þórhallur segir að þau þrjú hafi lagt af stað með þessar frábæru sýningar en vegna þess að Hannah flutti út á dögunum hafi vantað einn „geggjaðan“ í viðbót og því hafi hann bæst við. „Ég er hins vegar bara með kvíða, ekki tourette og var ekki viss hvort að það væri nógu gott. Ég var byrjaður að vera svolítið kvíðinn yfir því. Þessi sýning er um svona fólk sem á sér vandamál eða erfiðleika en lætur það ekki stoppa sig.“

Dan Zerin er með tourette-heilkennið og hefur búið á Íslandi í um þrjú ár. Andri Freyr spurði Zerin hvort hann hefði ekki glaðst yfir því að hitta Elvu og uppistandshópinn, „Aldeilis ekki. Þegar við Elva hittumst fyrst og ræddum þessa hugmynd þá var það eins og okkar tourette-heilkenni færu að keppast við hvort annað og þegar á leið versnuðu tilfellin bara og á endanum hugsuðum við hvort að sýningin væri ekki yfirleitt bara slæm hugmynd.“

Elva Dögg hefur vakið mikla athygli fyrir uppistand sitt á síðustu árum en þar hefur hún talað mjög opinskátt um tourette-heilkennið. Margir sáu einnig heimildarmyndina Snúið líf Elvu sem gerð var árið 2011. Elva segist mjög ánægð að hafa fundið þennan hóp og náð fleirum til sín í þetta form. „Dan var alltaf mjög feiminn við að tala um tourette-heilkenni sitt en sá svo mitt uppistand og fékk í kjölfarið þá hugmynd að fara af stað með uppistandskvöld. Í rauninni, fyrir fólk eins og okkur sem er að kljást við raskanir, þá er þetta eins konar þerapía. Að læra að sætta sig við sjálfan sig, maður er ekki einn. Svo er maður um leið að gefa þessu fólki rödd í samfélaginu og það er bara mjög gefandi og skemmtilegt.

Viðtalið má hlusta á hér að ofan og frekari upplýsingar um uppistandssýninguna My Voices Have Tourettes má finna hér.