Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Upphaf diskósins í New York

Mynd: David Mancuso Biography / David Mancuso Biography

Upphaf diskósins í New York

12.09.2019 - 09:30

Höfundar

Sumir segja að diskótónlistinn hafi orðið til á Valentínuardaginn árið 1970 í partíhúsnæði David Mancuso sem gekk undir nafninu The Loft. Diskó var partí- og danstónlist sem var mótvægi við rokk sem var allt um lykjandi, en hún var líka margt annað - meðal annars tól í baráttu minnihlutahópa við ríkjandi kerfi.

Í öðrum þætti af Snúðunum sem breyttu heiminum skoðuðum við upphafsár diskós í New York. Á árunum 1970-1975 kraumaði diskókúlturinn neðanjarðar í borginni og alls konar minnihlutahópar fundu allt í einu sinn stað til að vera frjáls. Þetta á við um hinsegin fólk jafnt sem fólk með annan húðlit en hvítan, en þessir hópar áttu undir mikið högg að sækja í Bandaríkjunum á árunum á undan.

Diskóklúbbarnir sem spruttu upp eins og gorkúlur á þessum árum voru eins og himnasending fyrir þetta fólk. En diskótónlistin sem við þekkjum í dag var ekki orðin til og byrjuð að koma út og því þurftu plötusnúðar klúbbana að vera frumlegir og úrræðagóðir til þess að halda fólki við efnið á dansgólfinu. 

Plötusnúðarnir spiluðu nánast allt sem fékk fólk til þessað hreyfa sig á dansgólfinu hvort sem það var enskt rokk, afrískur jazz eða hrynheit tónlist frá Suður-Ameríku en þeir tóku fljótt eftir því að það var hægt að gera betur og sérsníða tónlistina að dansgólfinu. Þá fóru þeir sjálfir að breyta og bæta lögin sem þeir höfðu til taks. Klippa kafla saman og lengja, ýkja bassa og trommur og fleira. Sem sagt plötusnúðarnir fóru að „edita“ og „rímixa“ lög. Þetta gerðu þeir oft þvert á vilja listafólksins sem gaf tónlistina upprunalega út en það kom í ljós að löngu dansvænu útgáfur plötusnúðanna urðu yfirleitt mun vinsælli en upprunalegu útgáfur laganna.

Í mjög stuttu máli var það nokkurn veginn svona sem að diskótónlistin varð til sem og skapaði í kjölfarið diskóæðið sem reið yfir heimsbyggðina alla. 

Lagalistinn
Sly and the Family Stone - Thank You For Talkin' To Me, Africa
Chicago Transit Authority - I’m a man
Eddie Kendricks - Girl You Need A Change Of Mind
MFSB feat. The Three Degrees - Love Is The Message (Special Long Version)
Babe Ruth - The Mexican 
Manu Dibango - Soul Makossa
Harold Melvin & The Bluenotes - The Love I lost
Love Unlimited Orchestra - Love’s Theme
Bonnie Bramlett - Crazy 'Bout My Baby
B.T. Express - Do It ('Til You're Satisfied)
Loleatta Holloway - Hit And Run (Walter Gibbons Mix)
Double Exposure - Ten Percent (Walter Gibbons 12" Mix)

Þú getur hlustað á annan þáttinn Snúðarnir sem breyttu heiminum í spilara hér fyrir ofan.