
Fornleifarannsóknir í kirkjugarðinum á Hofstöðum hafa staðið yfir með hléum undanfarin 14 ár. Kirkjugarðurinn er talinn vera frá seinnihluta 10. aldar og þar hafa nú þegar fundist 117 beinagrindur og tvær kirkjur.
Í sumar eru fornleifafræðingar enn á ný mættir í garðinn til rannsókna og hafa einbeitt sér að kirkjugarðsveggnum og svæðinu þar fyrir utan og leitað að gröfum utan garðs. Tvær barnsgrafir hafa nú þegar fundist og var beinagrind í annarri þeirra.
Oddgeir Ísaksen fornleifafræðingur segir að það að finna barnsbeinagrind undir kirkjugarðsvegg staðfesti það sem oft hafi verið sagt, og var í reglum kirkjunnar, að óskírða ætti ekki að grafa innan garðs og ekki heldur sjálfsvígstilfelli.
Rannsóknum á kirkjugarðinum á Hofstöðum er ekki nándar nærri lokið því áætlað er að grafa garðinn upp í heild sinni. Þar fengist þá heildstætt beinasafn frá miðöldum sem og ýmsar upplýsingar um greftrunarsiði og notkun kirkna á því tímabili.
„Ég myndi giska á að við séum komin með rúmlega helminginn af honum en við þurfum að stækka svæðið bæði til suðurs og vesturs á næstu árum til þess að ná honum upp í heild sinni,“ segir Oddgeir.