Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Uppgötvun dregur úr líkunum á Alzheimer

11.07.2012 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd:
Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa í samstarfi við lækna Landspítalans uppgötvað erfðabreytileika í mönnum sem dregur mjög úr líkum á Alzheimer sjúkdómnum og öðrum elliglöpum. Sagt er frá rannsókninni í vísindatímaritinu Nature í dag.

Erfðabreytileikinn er í geninu APP sem lengi hefur verið vitað að tengist Alzheimer sjúkdómi. Breytileikinn finnst hjá um einu prósenti Íslendinga og ber með sér öfluga vörn gegn sjúkdómnum. Líkurnar á því að þeir sem hafa breytileikann fái Alzheimer eru aðeins um fimmtungur af því sem gerist hjá þeim sem hafa hann ekki. Í fréttatilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu segir að um 750 núlifandi Íslendingar hafi erfðibreytileikann og að þeir einstaklingar séu því vel varðir gegn Alzheimer. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að niðurstöður rannsóknarinnar styðji við tiltekin þróunarverkefni á lyfjum, sem sum hver sé þegar verið að prófa á mönnum. Niðurstöðurnar bendi ótvírætt til þess að sú vinna sé á réttri leið.