Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Uppbygging innviða og stöðugleiki lykilorðin

02.11.2017 - 18:07
Mynd með færslu
Katrín Jakobsdóttir kemur til fundar við forseta Íslands í dag Mynd: Skjáskot - RÚV
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir það hafa verið endanlega ákveðið í dag að bjóða ekki fleiri flokkum að borðinu í stjórnarmyndunarviðræðum gömlu stjórnarandstöðuflokkanna. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir nauman meirihluta hljóta að kalla á aukið samráð við aðra á þinginu og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, forystumaður Pírata, segir uppbygging innviða verða miðpunktinn í formlegu stjórnarmyndunarviðræðunum sem hefjast á morgun.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fékk í dag stjórnarmyndunarumboðið eftir að hún og formenn Framsóknar, Samfylkingar og Pírata sammæltust um það að hefja formlegar viðræður.  Hún var mjög afdráttarlaus um að staðan í íslenskum stjórnmálum væri einfaldlega þannig að nú væri ekki tíminn til að leysa úr öllum heimsins ágreiningsmálum. Allir þyrftu að leggja eitthvað til hliðar

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Logi Már Einarsson

Og þess afstaða kemur einnig nokkuð skýrt fram hjá formönnum hinna þriggja flokkanna sem koma að viðræðunum á morgun.

Loga Má Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, líst ágætlega á viðræðurnar og er hóflega bjartsýnn. Haft hefur verið eftir Loga að hann væri opinn fyrir fimm flokka stjórn en hann segir í samtali við fréttastofu að það hafi verið endanlega ákveðið á fundi formannanna í dag að bjóða ekki fimmta flokknum til þátttöku í viðræðunum.  „Á morgun koma tveir til þrír frá hverjum þingflokki og við höldum þessu áfram, sjáum við til hvaða vendingar verða en svo er Katrín verkstjórinn í þessari vinnu.“

Loga er ekki ljós nein tímamörk á þessum viðræðum og segir að þetta þurfi „að taka nógu stuttan tíma til að þetta gerist fljótlega en það langan tíma að þetta verði vandað.“ Hann vilji gefa þessu viku.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að það ekkert hafa breyst síðustu daga að flokkarnir séu með nauman meirihluta. . Hann segir formenn flokkanna hafa orðið sammála um að flækjustigið yrði enn flóknara ef fimmta flokknum yrði boðið að borðinu því flokkarnir væru að sameinast um ákveðin uppbyggingarmál.  Engu að síður hlyti þessi naumi meirihluti að kalla á aukið samráð við aðra á þinginu.

Sigurður segir flokkanna fyrst og fremst stefna að því að taka utan um þau mál sem allir séu sammála um. Þetta sé uppbygging í heilbrigðismálum, menntamálum og samgöngumálum og tryggja jafnræði til þjónustu óháð búsetu. „Og síðan, sem er auðvitað mjög mikilvægt, að viðhalda stöðugleika í atvinnulífinu og efnahagslífinu.“ Flokkarnir ætli að fara í mál sem sameini þá en ekki verkefni sem sundri bæði þing og þjóð.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, forystumaður Pírata fyrir þingkosningarnar, segist vera bjartsýn á viðræðurnar og flokkurinn gangi með opnum huga til þeirra. Hún segist vera sammála því að uppbygging innviða verði burðarliðurinn í myndun þessarar stjórnar „enda það sem brennur mest á þjóðinni. Það er eðlilegt við byrjum þar og tölum um það sem við erum sammála um að gera. “ Og svo sé það stóra áskorunin - að viðhalda stöðugleika.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV