Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Uppbygging feli í sér mjög neikvæð áhrif

29.04.2019 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Skipulagsstofnun telur uppbyggingaráform í Kerlingarfjöllum falla illa að gildandi landsskipulagsstefnu um hálendið. Sumir kostirnir hafi í för með sér neikvæð áhrif á umhverfi og upplifun ferðamanna af svæðinu.

Fyrirtækið Fannborg sem rekur ferðaþjónustu í Kerlingarfjöllum lagði til fjóra mismunandi kosti í matskýrslu fyrir uppbyggingu á þessum vinsæla ferðamannastað. Skipulagsstofnun telur uppbygginguna geta haft veruleg neikvæð áhrif og reyna á þolmörk ferðamennsku á svæðinu.

Kostirnir fjórir fela í sér mismikla uppbyggingu. Valkostur 1 er svokallaður núllkostur en í honum felast endurbætur á núverandi mannvirkjum og starfsemi. Aðrir kostir fela í sér meiri uppbyggingu.

Skipulagsstofnun telur að valkostir 3 og 4 yrðu án fordæma í hálendismiðstöðvum á miðhálendinu og myndu færa Kerlingarfjöll í flokk með stærstu gististöðum á landinu utan höfuðborgarsvæðisins. Báðir kostirnir fela í sér gististað fyrir nærri 300 gesti.

Gistihús og aukin ferðaþjónusta

Valkostur 3 gerir ráð fyrir að byggðar verði tvær nýjar tveggja hæða gistiálmur auk viðbyggingar við nýtt hús sem reis þar árið 2016. Fimm eldri hús á svæðinu sem kölluð eru Nípur verða rifin.

Valkostur 4 gerir ráð fyrir að nær allar eldri byggingar á svæðinu hverfi og að í staðinn rísi gistiálmur út frá aðalbyggingu. Í valkostum 3 og 4 er áætlað að framkvæmdum verði lokið árið 2023.

Það er fjölgun ferðamanna sem hefði mest áhrif ef kostir 3 og 4 kæmust til framkvæmda. Mikil uppbygging og aukin ferðaþjónusta geti haft „veruleg neikvæð áhrif á landslag, jarðmyndanir og gróður.“ Uppbyggingin er sögð muna rýra óbyggðaupplifun á svæði með hátt verndargildi.

Skipulagsstofnun leggur til að fresta beri ákvörðunum um jafn viðamikla uppbyggingu og valkostir 3 og 4 fela í sér, enda sé stefna stjórnvalda að stofna þjóðgarð á miðhálendinu.

Kostur 2 þykir fela í sér óverulega fjölgun gistirúma jafnvel þó samsetning þeirra breytist. Meiri áhersla verði lögð á hótel- og gistiheimilagistingu í stað gistiskálagistingar, ásamt tvöföldun á stærð veitingastaðar.

„Skipulagsstofnun telur að valkostur 2 geti falið í sér óveruleg áhrif á ferðaþjónustu, útivist, landslag og náttúrufar, að því gefnu að við endanlega hönnun og leyfisveitingar til framkvæmda og rekstrar verði tryggt að ráðandi hluti gistingar verði gistiskála- og/eða fjallaskálagisting,“ segir í tilkynningu á vef stofnunarinnar.