Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Unnið hægar hér í vörnum gegn spillingu

05.09.2018 - 15:43
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Hraða þarf vinnu við heildstæða löggjöf um uppljóstraravernd fyrir opinbera starfsmenn og einkageirann og leggja fram frumvarp um þetta efni sem allra fyrst. Þá þarf að ráðast í heildarstefnumótun um upplýsingagjöf til almennings, þar með talið upplýsingagjöf handhafa dómsvalds og löggjafarfvalds og stytta afgreiðslutíma úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Þetta og fleira er að finna í tillögum starfshóps um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu sem Katrín Jakobsdóttir skipaði í byrjun árs. Starfshópnum, sem Jón Ólafsson heimspekingur veitti formennsku, var ætlað að fjalla um hvaða þættir hafa áhrif á traust á stjórnmálum og stjórnsýslu og hvernig hægt sé að vinna markvisst að því að auka það.

Starfshópurinn segir að Íslendingar hafi farið sér hægar en nágrannaþjóðirnar í aðgerðum til að tryggja heilindi í opinberum störfum og hér á landi hafi minna tillit verið tekið til tilmæla og leiðbeininga alþjóðlegra stofnana um varnir gegn spillingu en æskilegt hefði verið.

„Það er niðurstaða starfshópsins að til að breyta þessu þurfi stjórnvöld að móta heildarstefnu um heilindi í stjórnmálum og stjórnsýslu og fylgja henni eftir með aðgerðaráætlun. Starfshópurinn metur það svo að vantraust íslensks almennings á stjórnkerfinu sem kannanir sýna að er talsvert meira en á öðrum Norðurlöndum, megi að hluta rekja til þess að ekki hefur verið hugað nægjanlega að slíkri stefnumótun. Stjórnvöld eru því vanbúin að bregðast við, taka og læra af gagnrýni. Einnig skortir nauðsynleg tæki og tól til að rýna fyrirfram ákvarðanir, framkomu og samskipti við almenning,“ segir í skýrslunni.

Skýrslan var kynnt á ríkisstjórnarfundi í gær og aftur á blaðamannafundi í Safnahúsinu í dag. Forsætisráðherra hyggst svo kynna skýrsluna fyrir Alþingi eftir að það kemur saman í næstu viku.

Hér má nálgast skýrslu starfshópsins.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV