Unnið að stofnun menntaseturs í Hrísey

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV

Unnið að stofnun menntaseturs í Hrísey

09.12.2016 - 19:29

Höfundar

Unnið er að því að koma á stofn menntasetri í Hrísey. Í því felst að fólk hvaðanæva af landinu geti dvalið tímabundið í Hrísey og sinnt sínu fjarnámi þaðan. Þá opnist ýmsir námsmöguleikar fyrir heimafólk í eynni.

Hugmyndin að menntasetri í Hrísey er sprottin úr samtölum um þróun byggðar í eynni en mikil vinna hefur farið fram undanfarin ár við að styrkja samfélagið í Hrísey og sporna við fólksfækkun þar.     

Aðstaða fyrir hvern sem er til að stunda fjárnám

„Hugmyndin er að hver sem er sem stundar fjarnám geti komið út í Hrísey og fengið þar námsaðstöðu, námsaðstoð, samfélag og húsnæði,“ segir Kristján Óttar Klausen, sem fer fyrir verkefninu. Þá verði þarna aðstaða fyrir heimafólk í Hrísey til að stunda framhalds- eða háskólanám eða endurmennta sig á annan hátt.

Segir Hrísey hafa upp á margt að bjóða

Menntasetrið þurfi gott netsamband og kennsluhúsnæði og fyrir aðkomufólk séu mörg íbúðarhús í Hrísey aðeins notuð yfir sumartímann, sem fólk geti leigt. „Hrísey hefur svo svakalega mikið að bjóða. Þó sérstaklega kyrrðina og næringuna sem er hérna og felst í að vera hérna,“ segir Kristján. 

Æskilegt að byrja haustið 2017

Kristján fékk styrk úr verkefninu Brothættum byggðum og hefur átt þar samstarf við verkefnastjórann, auk heimamanna í Hrísey. Hann segir nauðsynlegt að tengjast fyrirtækjum og stofnunum því breiðari þáttaka styrki verkefnið. Þá segist hann horfa þess sem gert hefur verið annarsstaðar á landinu. Og hann vill vinna þetta hratt. „Óskandi væri að geta tekið inn þátttakendur til prufu næsta haust, haustið 2017.“

>>