Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Unnið að loftslagslausnum í Blábankanum

06.09.2019 - 17:59
Mynd með færslu
 Mynd: Denise Admiraal
Um þrjátíu manns frá Íslandi og útlöndum unnu að nýjum lausnum og hugmyndum í tengslum við hafið í Loftslagsskólanum í Blábankanum á Þingeyri á Vestfjörðum. Skólinn er hluti af alþjóðlegu samstarfi og hefur verið haldinn með mismunandi áherslum í New York, Tókíó og á Þingeyri.

Skólinn var haldinn af Blábankanum í samstarfi við Future food network og matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Heimsótt voru fyrirtæki og staðir sem vinna að málefnum hafsins, svo sem 3X, Arctic Fish í Dýrafirði og Háskólasetur Vestfjarða.

„Það sköpuðust mjög skemmtilegar umræður og dýnamík,“ segir Arnar Sigurðsson Blábankastjóri á Þingeyri.

Arnar segir námskeiðið hafa tekist vel og að gott samtal á milli skólans og samfélagsins hafi átt sér stað. Hann segir það hafa aukið styrkleika skólans að vera haldinn á Þingeyri í návígi við samfélag sem er svo tengt málefnum hafsins og loftslagsins.

Hann segir hugmyndir af ýmsum toga hafa sprottið upp með sjálfbærni að leiðarljósi og að nemendur fóru heim innblásnir.

„Mér þótti mjög vænt þegar ung kona sem tók þátt frá lítilli eyju í suður Ítalíu stóð upp í lok kvöldsins og sagði að þessi ferð hingað og það að upplifa samfélagið hérna á Þingeyri hefði svolítið opnað augu hennar fyrir sinni heimabyggð og fyrir því hversu mikilvæg smærri samfélög séu. Að smærri samfélög geti velt þungu hlassi. Hún lýsti því yfir að sig langaði til að fara aftur til sinnar heimabyggðar og vinna að einhverjum framfaramálum þar.“