Unicef óttast um afdrif barna í Mosul

18.10.2016 - 02:13
Deilur og stríð · Erlent · Asía · Írak · UNICEF
epa05588279 (FILE) A file picture dated 10 October 2016 shows Iraqi Kurdish Peshmerga fighters aiming their weapons near the town of Bashiqa, the frontline of fighting between Kurdish forces and militants from the so-called Islamic State group (IS or ISIS
 Mynd: EPA
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, Unicef, óttast að fjöldi barna gæti þurft að flýja heimili sín, orðið innlyksa í víglínu eða orðið fyrir skotárásum í Mosul. Peter Hawkins, starfsmaður Unicef í Írak, segir í fréttatilkynningu Unicef að börn í Mosul hafa þurft að þola nóg síðustu tvö ár. Kallað er eftir því að allir hlutaðeigandi virði mannréttindalög og verndi börn.

Yfir hálf milljón barna og fjölskyldur þeirra í Mosul verða í mikilli hættu næstu vikur, en Íraksstjórn tilkynnti í gærkvöld að innrás í borgina væri hafin til þess að frelsa hana undan valdi íslamska ríkisins. Unicef undirbýr neyðaraðstoð í borginni og á nægar vatns-, salernis- og hreinlætisvistir fyrir yfir 150 þúsund manns nú þegar. Unnið er að því að eiga nóg fyrir 350 þúsund á næstu vikum.

Sjálfboðaliðar eru í viðbragðsstöðu til þess að annast alvarlegustu tilfelli andlegra og líkamlegra afleiðinga stríðsins á börn. Þá eru 50 teymi tilbúin til þess að bólusetja börn við mislingum og mænusótt.

Unicef kallar eftir því að allar átakasveitir geri hvað þær geta til þess að vernda börn og virða alþjóðleg mannréttindalög. Þannig geti börn og fjölskyldur þeirra komist heil á húfi í gegnum átökin.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi

Tengdar fréttir