Ungverjar hætta í Eurovision vegna vaxandi hommahaturs

Conchita Wurst ESC2015
 Mynd: Andres Putting (EBU)

Ungverjar hætta í Eurovision vegna vaxandi hommahaturs

27.11.2019 - 17:00

Höfundar

Ungverjaland tekur ekki þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á næsta ári. Engin opinber ástæða hefur verið gefin út en margir telja að íhaldssamri ríkisstjórn Viktors Orbán, sem hefur haldið á lofti hómófóbískri orðræðu undanfarin misseri, þyki keppnin of samkynhneigð.

Þetta kemur fram á vef Guardian, og jafnframt að íhaldssöm ríkisstjórn Orbáns hafi nýlega hafið herferð fyrir „hefðbundnum“ fjölskyldugildum sem miði að því að auka fæðingartíðni. Í upphafi árs líkti talsmaður ríkisstjórnarinnar ættleiðingum samkynhneigðra við kynferðislega misnotkun á börnun, og álitsgjafi hliðhollur ríkisstjórninni hefur sagt söngvakeppnina eins og samkynhneigðan smáflota, og að hætta þátttöku í henni hefði góð áhrif á andlega heilsu þjóðarinnar. Í svari frá ungverska ríkissjónvarpinu kemur fram að forkeppnin verði enn þá haldin en ætlunin sé að eyða því fé sem annars hefði farið í þátttöku í söngvakeppninni í að koma sigurvegaranum á framfæri í innlendum fjölmiðlum. Eurovision-vefur Guardian hefur hins vegar eftir starfsmönnum ungverska ríkissjónvarpsins að það sé altalað innan veggja þess að tenging Söngvakeppninnar við menningu samkynhneigðra sé ástæða þess að ákveðið var að draga Ungverja út úr keppninni. 

Þrátt fyrir að forsætisráðherrann Orbán hafi forðast hómófóbíska æsingaorðræðu hefur hún aukist mikið í hans nánasta hring. Þingmaður úr flokki hans hvatti til dæmis til sniðgöngu á Coca Cola vegna þess að fyrirtækið sýndi samkynhneigt par í auglýsingu. Þá hefur forseti þingsins László Kövér sagt að enginn munur sé á hegðun barnaníðings og þess sem krefjist ættleiðingar til samkynhneigðra. Þá segir Kövér jafnframt að „venjulegt“ samkynhneigt fólk ætti að gera sér grein fyrir óæðri stöðu sinni í samfélaginu. Þá segir íhaldssami álitsgjafinn András Bencsik að í söngvakeppninni fari fram „gjöreyðing á almennum smekklegheitum af hendi öskrandi klæðskiptinga og skeggjaðra kvenna.“

Tengdar fréttir

Popptónlist

Opnað fyrir lög í Söngvakeppnina 2020

Tónlist

Undirbúa söngvakeppni í Ameríku

Popptónlist

Söngvakeppnisæði Íslendinga rannsóknarefni

Menningarefni

Yfirburðasigur hjá Hatara í Söngvakeppninni