Unglingauppreisn í Þjóðleikhúsinu

Mynd:  / 

Unglingauppreisn í Þjóðleikhúsinu

05.03.2019 - 12:25

Höfundar

Jónsmessurnæturdraumur er þokkafull, íburðarmikil og á köflum morðfyndin sýning í snilldarlegri nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns, að mati gagnrýnanda Menningarinnar.

Dagný Kristjánsdóttir skrifar:

Það eru tvö Shakespeare-leikrit á fjölunum í Reykjavík; Borgarleikhúsið sýnir hina stílfögru og rómuðu sýningu Ríkharð III og Þjóðleikhúsið frumsýndi í gær Jónsmessunæturdraum við mikil fagnaðarlæti áhorfenda.

Ævintýri og gamanleikur

Fjórar sögur fléttast eiginlega saman í þessu verki. Þeseifur, hertogi af Aþenu (Atli Rafn Sigurðsson) ætlar að kvænast Hippólítu, áður drottningu hinna herskáu Amazona (Birgitta Brigisdóttir). Brúðkaupið á að fara fram á Jónsmessu í höll Egeifs.

Mynd með færslu
 Mynd:

Egeifur (Pálmi Gestsson) klagar dóttur sína Hermíu (Þóreyju Birgisdóttur) fyrir hertoganum því hún vill ekki hlýða honum, elskar Lýsander (Odd Júlíusson) og neitar að giftast Demetríus (Hákoni Jóhannessyni) sem hafði áður verið með Helenu (Eygló Hilmarsdóttur) en fallið fyrir Hermíu. Jónsmessunæturdraumur er í grunninn um unglingauppreisn gegn feðraveldi og frelsisskerðingum. Óhjákvæmilega koma upp flækjur og misskilningur og æstar yfirlýsingar og slagsmál en líka mikil ást og rómantík. Allt þetta þýða Þórarinn Eldjárn og Magnea Matthíasdóttir af tærri snilld.

Mynd með færslu
 Mynd:

Sviðsmynd Evu Signýjar Berger er glæsileg. Við horfum á bogamyndaða hótelbyggingu eins og hálft hringleikahús á þremur hæðum með gríðarmörgum dyrum á hverri hæð. Bakgrunnurinn var skreyttur með art deco veggfóðri með sólarmynstri og hringir og bogar einkenndu myndina eins og hæfir sóli og mána. Stiginn upp á aðra hæðina og pallurinn fyrir framan dyrnar snerust og urðu hluti af skóginum sem unga fólkið flýr út í. Lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar var glæsileg og bjó til litadýrð og fegurð. Búningar Karenar Briem voru skrautlegir og hugmyndaríkir.

Álfar

Það er Jónsmessunótt, nóttin fyrir Jónsmessu, mörk milli sumars og vetrar þar sem heimar hins yfirnáttúrlega og mannheima eru óskýrari en ella, allir kraftar eru lausbeislaðir, góðir og illir, leyfðir og forboðnir. Oft hefur verið bent á hinar myrku fantasíur sem eru á ferð í þessum „saklausa gamanleik“. Kynuslinn er áberandi en líka aðrar hæpnar og „dýrslegar“ hvatir. Álfarnir eru á kreiki en meðal þeirra er allt uppíloft því Kóngurinn Óberon (Atli Rafn) og kona hans Títanía (Birgitta) eru ósátt og rífast stöðugt, hún neitar að lúta vilja hans, heldur fram hjá honum og neitar að afhenda honum sinn fagra fylgisvein, umskipting og skjólstæðing. Hún brýtur niður þá reglu sem hann stendur fyrir þ.e. karlveldi í álfheimum.

Mynd með færslu
 Mynd:

Hjálparmaður Oberon í flóknu plotti til að ná aftur ástum Títaníu er indverski álfurinn Búkki (Guðjón Davíð Karlsson) sem er bragðarefur, heillandi, samviskulaus og mistækur – eins konar Loki sem er upphafsmaður allra vandræða en leysir líka úr þeim eftir að allt er komið í hnút.

Og svo eru álfameyjarnar Fis, Erta og tveir álfar (Hildur Jakobína Tryggvadóttir, Hildur Ketilsdóttir, Juliette Louste og Sindri Diegeo). Þau dansa fagra og oft erótíska dansa eftir Katrínu Gunnarsdóttur af krafti,mýkt og þokka.

Leikrit í leikritinu

Fjórði þátturinn í verkinu, á eftir ástamálum aðalsmanna og barna þeirra, í leikstjórn Oberon álfakóngs og Búkka, er einn sá albesti í verkinu og sýningunni allri. Vel má líta á þann þátt sem skopstælingu á hörmum yfirstéttarbarnanna eða sögn um lífið í leikhúsinu.

Þetta er nefnilega leikrit sem þjónarnir (hjá Shakespeare einfaldir handverksmenn í borginni) hafa ákveðið að færa upp sem skemmtiatriði í veislu hertogans og drottningar hans, þeim til heiðurs og skemmtunar. Leikarar eru Bossi, Smíddi, Belgi, Trýni, Snikka og Svelti. Þau hafa ákveðið að færa upp harmleikinn um Pýramus, sem Ólafía Hrönn leikur, og Þispu, sem Bjarni Snæbjörnsson leikur. Pálmi Gestsson leikur vegg, Edda Arnljótsdóttir ljón, Sigurður Sigurjónsson var leikstjóri og fór með forleikinn og Aron Steinn Ásbjarnarson framkallaði tunglsljós og passaði hund Þeseifs, Skottu, samtímis.

Mynd með færslu
 Mynd:

Þetta var alveg morðfyndið. Það var sérstaklega fyndið að sjá þessa vinsælustu leikara þjóðarinnar leika áhugamenn. Ólafía Hrönn fór á kostum sem hinn bosmamikli Bossi og þau Bjarni og Aron Steinn héldu áhorfendum í hláturskrampa.

Þrefalt brúðkaup

Tónlist Gísla Galdurs og Kristjáns Sigmundar Einarssonar er stórgóð og flutningur leikara yfirleitt góður á slögurum sem féllu misvel inn í sýninguna. Og svo endar allt í þreföldu brúðkaupi og partýi og óvæntri söngleikjasyrpu sem gegndi engu hlutverki eftir þessa bráðskemmtilegu sýningu.

Tengdar fréttir

Leiklist

Leikhúsmaður gerist einkaspæjari á Mallorca

Leiklist

Leikhús 2.0

Leiklist

Snubbóttur endir á gagnvirku leikriti

Leiklist

Telur Hans Blæ vera mesta samtímaverk ársins