Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ungamamma á sjötugsaldri

12.03.2011 - 17:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Elsti fugl á norðurhveli jarðar, albatross kvenfuglinn Wisdom, sem nú er á sjötugsaldri er enn á ný komin með unga í hreiður sitt á Midway eyjaklasanum á Kyrrahafi.

Albatross kerlingin Wisdom er að minnsta kosti 60 ára gömul. Hún flýgur um það bil 80 þúsund kílómetra á hverju ári og hefur komið upp um 30 ungum svo vitað sé. Hún var merkt af bandarískum fluglafræðingum með hringmerki á fæti þar sem hún lá á eggi sínu á Midway árið 1956.


Albatrossar eyða æskuárunum á hafi úti og geta ekki orpið fyrir fimm ára aldur og flestir verpa ekki fyrr en þeir eru 8 til 9 ára gamlir. Þeir koma þá á varpstöðvarnar og eftir tilkomumikið tilhugalíf velja þeir sér maka sem þeir bindast alla ævi. Ekki er vitað hvað karl abatrossfrúarinnar Wisdom er gamall en vísindamenn telja að hún sjálf gæti verið allt að 65 ára gömul.


Albatrossar voru að fornu álitnir bestu vinir sjófarenda og því fylgdi bölvun að drepa albatross, þeir sem það gerðu glötuðu sálarheill sinni og urðu að sigla um úthöfin um eilífan aldur.