Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Undraverður uppgangur Angelu Merkel

Mynd: Ulrich Baumgarten / Ulrich Baumgarten

Undraverður uppgangur Angelu Merkel

01.09.2017 - 14:23

Höfundar

Angela Merkel Þýskalandskanslari er einhver mest áberandi og valdamesti stjórnmálamaður síðari ára. Þrátt fyrir það viðurkennir hún sjálf að fáir viti mikið um líf hennar fyrstu fjóra áratugina eða svo. Sá hluti lífs hennar er almennt talinn viðburðalítill — en þó er frá nægu að segja.

Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um ævi Angelu Merkel — æsku hennar í Austur-Þýskalandi, feril sem eðlisfræðingur, stutt kynni hennar af leynilögreglunni Stasi, stjórnmálaferil og fleira. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan. 

Flutti austur örfárra vikna

Angela Merkel var fædd í Hamborg, en var aðeins örfárra vikna gömul þegar foreldrar hennar fluttust til Austur-Þýskalands þar sem faðir hennar fékk vinnu sem lúterskur prestur. 

Hún lærði eðlisfræði í háskóla og fékk að því loknu starf við rannsóknir í vísindaakademíu í Berlín.

Hún hafði lengst af lítinn áhuga á stjórnmálum þó svo að hún hafi vissulega fylgst með þjóðmálum og verið gagnrýnin á einræðisstjórnina í austri, að minnsta kosti í spjalli á kaffistofu eðlisfræðinganna. 

Í gufubaði þegar múrinn féll

Merkel var vanaföst og var því í sínu vikulega gufubaði kvöldið 9. nóvember 1989, þegar landamæri Austur-Þýskalands voru opnuð og Berlínarmúrinn féll. 

Síðar um kvöldið fór hún örstutt yfir til Vestur-Berlínar en hélt fljótt heim á leið, þar sem hún þurfti að mæta snemma til vinnu morguninn eftir. 

En þrátt fyrir þá varkárni smitaðist Merkel af andrúmsloftinu við fall múrsins og ákvað að fara að blanda sér í stjórnmál.

Hún gekk í nýstofnaðan hægriflokk sem tengdist kirkjunni og þó að hennar fyrsta pólitíska starf hafi verið að útdeila bæklingum fyrir flokkinn á götum úti vakti hún fljótt athygli — og var von bráðar orðin talsmaður flokksins. 

Strax á þing

Flokkur Merkel rann saman við Kristilega demókrataflokkinn CDU við sameiningu Austur- og Vestur-Þýskalands og þar innanborðs vakti Merkel sömuleiðis athygli. 

Bæði sem flinkur og skipulagður stjórnmálamaður — og því að hún var ung kona og frá austurhlutanum, eða flest það sem Kristilega demókrata skorti á þessum tíma.

Þótti því kjörið að hún færi fram í fyrstu þingkosningum sameinaðs Þýskalands, og hlaut hún auðveldlega þingsæti.

Föðurmorð

Hún var nýkjörin á þýska þingið þegar hún var færð á fund Helmuts Kohl kanslara og gerð að ráðherra í stjórn hans. Þá var hún 35 ára, og yngsti ráðherra í sögu Þýskalands. 

Síðar átti hún þó eftir að svíkja Kohl opinberlega — nokkuð sem kallað var „föðurmorð“ í þýsku pressunni — og stóð í kjölfarið sjálf uppi sem formaður Kristilegra demókrata og loks kanslari Þýskalands, fyrst kvenna.

Hlustið á allan þáttinn um Angelu Merkel í spilaranum hér að ofan.