Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Undirskriftasöfnun ekki samkvæmt reglum

29.03.2019 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Undirskriftasöfnun samtakanna Andstæðinga stóriðju í Helguvík var ekki framkvæmd samkvæmt sveitarstjórnarlögum og getur því ekki orðið grundvöllur íbúakosninga, að því er fram kemur í fundargerð fundar bæjarráðs Reykjanesbæjar í gær. Einar Atlason, formaður samtakanna, segir þessa niðurstöðu ekki breyta því að þau hafi safnað undirskriftum fjórðungs kosningabærra íbúa. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs segir niðurstöðuna ekki útiloka að íbúakosning fari fram.

Með söfnun undirskriftanna vildu samtökin krefjast þess að bæjaryfirvöld láti fara fram íbúakosningu um það hvort kísilverksmiðja Stakksbergs, áður United Silicon, fái að hefja starfsemi á ný og um það hvort kísilverksmiðja Thorsil verði reist í bæjarfélaginu. „Mér finnst leiðinlegt að þetta skuli hafa verið svona og hefði auðvitað kosið að þetta hefði verið gert samkvæmt þeim reglum sem við eiga,“ segir Friðjón. 

2.700 undirskriftum var safnað í lok síðasta árs og þær afhentar bæjaryfirvöldum í febrúar. Að sögn Friðjóns ráðfærði lögmaður Reykjanesbæjar sig við Hagstofuna og fer eftir þeim reglum sem gilda. „Til samanburðar hefur hann sveitarstjórnarlög og það er það eina sem gildir. Þetta hefur ekki neitt með skoðun okkar að gera á því máli,“ segir hann.  

Ákvæði um tímasetningu, ábyrgðaraðila, samræmi um spurningar og samráð við bæjaryfirvöld er meðal þess sem ekki var uppfyllt við söfnun undirskrifta, að sögn Friðjóns.  

Ætla að ráðfæra sig við lögmenn

Einar segir að þau í samtökunum séu enn að melta tíðindin og ætla að heyra í lögmönnum sínum vegna málsins. Hann bendir á að í kosningabaráttu fyrir sveitarstjórnarkosningar í fyrra hafi flokkarnir sem nú eru í meirihluta lagt mikla áherslu á að íbúar fengju að koma að ákvörðunum um framtíð Helguvíkur. Hann segir að ákveðið hafi verið að drífa í því að hefja rafræna undirskriftasöfnun og skora á meirihlutann að standa við kosningaloforðin. 

Segir bæjarstjórn enn fylgjandi kosningu

Flokkarnir þrír sem mynda meirihluta í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, Samfylking, Framsóknarflokkur og Bein leið, settu það í sáttmála sinn í upphafi kjörtímabilsins að hafna mengandi stóriðju í Helguvík. Formaður bæjarráðs segir að sú skoðun hafi ekki breyst og að bæjaryfirvöld séu mjög þakklát fyrir undirskriftasöfnunina og ætli að taka tillit til vilja íbúa. Ef, aftur á móti, hefði verið ákveðið að halda íbúakosningu á grundvelli undirskriftasöfnunar sem ekki stæðist reglur gætu aðrir kært þá framkvæmd. „Eins og ég hef oft sagt hef ég áhuga á að heyra hvað íbúar segja,“ segir Friðjón. 

Meta í vor hvort íbúakosning verði haldin

Stakksberg, eigandi kísilverksmiðjunnar, leggur að öllum líkindum fram tillögu að breyttu deiliskipulagi í Helguvík í maí eða júní og segir Friðjón að bæjaryfirvöld meti þá hvort haldin verði íbúakosning um þær breytingar. Starfsemi hófst í verksmiðjunni haustið 2016 og var stöðvuð af Umhverfisstofnun haustið 2017. Mikla mengun lagði frá verksmiðjunni. Umhverfisstofnun fékk sendar fjölda ábendinga frá íbúum sem fundu fyrir ýmsum líkamlegum óþægindum og veikindum vegna hennar. Stakksberg hefur lýst því yfir að ætla að vinna að nauðsynlegum endurbótum á verksmiðjunni og selja hana svo.