Undirbúningur málaferla BHM gegn íslenska ríkinu vegna lagasetningarinnar á verkfallsaðgerðir stéttarfélagsins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga er kominn á fullt, samkvæmt upplýsingum frá BHM.
Samninganefnd BHM kemur saman til fundar núna klukkan níu til að fara yfir stöðuna eftir lagasetninguna. Ástráður Haraldsson lögmaður, sem hefur verið BHM til ráðgjafar, sagði í fréttum RÚV í gær að lögin standist ekki stjórnarskrá. Málið verði höfðað fyrir héraðsdómi Reykjavíkur.
Ólafur G. Skúlason formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sagði í fréttum í gær að félagið íhugaði málsókn. Lögfræðingur félagsins fari nú yfir stöðuna. Ólafur segist eiga von á tíðindum þar að lútandi í vikunni.
Fundur stendur nú yfir hjá sýslumanni höfuðborgarsvæðisins með starfsfólki embættisins þar sem farið er yfir skipulag vinnunnar framundan. Þar hafa safnast upp þúsundir skjala í verkfallinu sem á eftir að þinglýsa.